Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:16:39 (997)

1995-11-17 13:16:39# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:16]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur verið upplýst í dag að þrír þingflokkar styðja hugmyndina um veiðileyfagjald en afstaða stjórnarflokkanna og Alþb. hefur ekki komið skýrt fram. Það er ljóst að innan Sjálfstfl. eru skiptar skoðanir um veiðileyfagjald. M.a. lýsti hv. þm. Pétur Blöndal því yfir að hann væri hlynntur þeirri leið að dreifa veiðiheimildum á milli allra landsmanna og kom auk þess fram með mjög athyglisverða og umhugsunarverða hugmynd um leið til að komast út úr núverandi kerfi og yfir í annað.

Ég vil vekja athygli á því að enginn framsóknarmaður hefur tekið þátt í umræðu um þetta mikilvæga mál og ég lýsi eftir afstöðu Framsfl. eða framsóknarþingmanna til þessa máls. Eru þingmenn Reyknesinga með sérstöðu í þessu máli eða er allur Framsfl. sammála stefnu Þorsteins Pálssonar? Það er mjög mikilvægt að mínu mati að þjóðin átti sig á því að Framsfl. virðist forðast umræðu um þetta mál. Ég ætlaði að segja að að væri enginn framsóknarþingmaður í salnum en núna er einn varaþingmaður kominn í salinn.

Ég fagna þeim skilningi hæstv. fjmrh. að það sé alls ekkert sjálfsagt að ríkið greiði sjómönnum laun fyrir atvinnurekendur. Ég fagna þeirri réttlætiskennd hans að það sé lágmark að útgerðarmenn standi undir launum sjómanna og að einhverju leyti undir kostnaði við rannsóknir í sjávarútvegi. Vegna orða hv. þm. Kristins Gunnarssonar vil ég taka fram að ég tel laun sjómanna alls ekki vera of góð en að atvinnurekendum þeirra beri að greiða þau. Mér finnst t.d. ekki eðlilegt að það fólk sem t.d. vinnur á Akraborginni eða við beitningar fái helmingi hærri persónufrádrátt en aðrir landsmenn.

Vegna orða hæstv. sjútvrh. tek ég fram að ég er hlynnt því að fiskvinnslufólk fái mun hærri laun. Ég er þeirrar skoðunar að atvinnurekendur þeirra, þ.e. útgerðarmenn eða þeir sem eiga fiskvinnsluna, geti greitt hærri laun og vona svo sannarlega að því takist að semja betur næst.

Vegna stefnu Kvennalistans um byggðakvóta sem hv. þm. Kristinn Gunnarsson gerði áðan að umtalsefni skal það upplýst að við höfum ekkert fallið frá þeirri stefnu enda lagði ég áherslu á það í fyrri ræðu minni ef ekki næðist fram endurskoðun, sem væri í takt við okkar stefnu, væri það lágmarkskrafa að styðja hugmyndina um veiðileyfagjald vegna þess að sú stefna við fiskveiðistjórnun, sem nú ríkir, stríðir að mínu mati gegn lögunum um stjórnun fiskveiða. Ég tek líka fram að þingflokkur Kvennalistans í heild er þessarar skoðunar. Hugmyndir um aflagjald voru ræddar á nýloknum landsfundi Kennalistans og var samþykkt að styðja hugmyndir um aflagjald.