Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:21:17 (998)

1995-11-17 13:21:17# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:21]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég beini tveimur spurningum til hv. þm. Í fyrsta lagi: Hvort á að hafa forgang, að leggja skatt á sjávarútveginn til þess að draga peninga inn í ríkissjóð eða að nota það svigrúm sem hv. þm. telur að sé fyrir hendi í sjávarútveginum til þess að greiða fiskvinnslufólki hærra laun? Það væri mjög æskilegt og þarft fyrir umræðuna að fá að vita þessa forgangsröð svo við deilum ekki um aðra þætti í þessu efni.

Í annan stað vildi ég gjarnan fá að vita um þá hugmynd sem hv. þm. var að taka undir og hv. 16. þm. Reykv. reifaði að aflaheimildum yrði dreift á alla einstaklinga í landinu og þeir gætu síðan selt þeim sem vilja gera út. Þetta er um margt mjög athyglisverð hugmynd og mundi auðvitað þýða miklu meiri dreifingu í upphafi á yfirráðum yfir veiðiréttinum. En það er grundvallarspurning sem hv. þm. þarf að svara og hv. 16. þm. Reykv. svaraði. Hann sagði: Ég tel ekki að það eigi að leggja auðlindaskatt á úthlutun þessara aflaheimilda til einstaklinganna. Þeir geta selt aflaheimildirnar og þurfa sjálfsagt að greiða síðan tekjuskatt af þeim söluhagnaði en það á ekki að leggja á þá auðlindaskatt. Nú vil ég spyrja hv. þm.: Ef þessi leið yrði farin telur hann að það eigi að leggja auðlindaskatt á einstaklingana sem fengju úthlutað veiðiheimildum með þessum hætti og taka síðan af þeim tekjuskatt þegar veiðiheimildirnar yrðu seldar útgerðarmönnunum?