Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:51:00 (1006)

1995-11-17 13:51:00# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:51]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt hjá hæstv. sjútvrh. að ég hafi sagt að hann væri skilningslaus, heyrnarlaus og mállaus. Ég sagði að hann væri skilningslaus og heyrnarlaus, ég held að ég hafi ekki sagt að hann væri mállaus. Hin tvö atriðin passa algjörlega.

Ég veit ekki hvor hefur minni og verri málstað að verja í þessu máli, hæstv. sjútvrh. verður bara að meta sinn málflutning sjálfur. Ég vil hins vegar benda á að í tillögunni er gert ráð fyrir að skipuð verði nefnd sem á að kanna form veiðileyfagjalds með tilliti til áhrifa m.a. á eftirtalin atriði: Fjárhagslega stöðu sjávarútvegs, fiskveiðistjórnun, viðskipti með veiðileyfi, hagstjórn hérlendis, byggðaþróun, samkeppnisstöðu atvinnuvega og ríkisfjármál. Nefndin á að skoða áhrif álagningu veiðileyfagjalds á alla þessa þætti og eðlilegt að sú vinna fari fram innan hennar. Einhverjum af þeim spurningum sem vaknað hafa í umræðunni mun vitaskuld verða svarað þegar kemur að nefndarskipuninni, en grundvallarrökin í henni eru óbreytt.