Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:58:05 (1011)

1995-11-17 13:58:05# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:58]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að þessi tillaga sem hér liggur fyrir fjallar ekki um að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hún byggir á óbreyttu aflamarkskerfi. Hún byggir á því að menn geti keypt og selt aflaheimildir. Svo kemur hv. 9. þm. Reykv. og segir: ,,Ég styð þessa tillögu, en ég tel samt að það verði aldrei sátt um það að menn geti keypt og selt aflaheimildir.`` Í aðalræðu sinni í dag var hann að færa rök fyrir því að það ætti að fara allt aðrar leiðir við að úthluta aflaheimildunum, með því að selja aflaheimildirnar. Hann taldi að það hefði verið ranglega farið að þegar þeim var úthlutað í upphafi. En nýi krataflokkurinn segir: Við eigum að byggja á þeirri úthlutun, við eigum ekki að hverfa frá henni. Það er orðið nokkuð skrýtið ef hv. þm. ætlar að fylgja tveimur stefnum og fylgja fram tveimur gjörsamlega ólíkum hugmyndum um fiskveiðistjórnunarkerfi. Þess vegna er von að maður spyrji: Er ekki skynsamlegt af gamla krataflokknum að hafa bara eina stefnu í þessu efni?