Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:01:14 (1013)

1995-11-17 14:01:14# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:01]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því þegar það kemur fram að hv. flm., 6. þm. Norðurl. e., blandar ekki saman vandamálum eins og úrkasti á fiski og skattlagningu. Ég fagna þeirri yfirlýsingu. Þær leiðir sem nefndar eru í greinargerð með tillögunni sýna auðvitað ruglandann í þessum málflutningi. Því er m.a. slegið föstu að það eigi að setja á skatt, en ein leiðin felur ekki sjálfkrafa í sér að lagður sé á skattur. Þar segir að úthluta eigi aflaheimildum á hvern einstakling í landinu. Þar er ekki lagt til að skattur verði greiddur í ríkissjóð. Það er von að spurt sé hvað hv. flm. séu að hugsa. Það er hægt að leggja fram sjö hugmyndir og segja svo að það sé fullt af hugmyndum í viðbót sem ganga hver í sína áttina. Menn hljóta að spyrja hvert þessi flokkur sé að fara. Hvað er það sem hann vill í raun og veru?