Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:03:27 (1015)

1995-11-17 14:03:27# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:03]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf til bóta að menn skoði mál og ekki síst af því tagi sem við erum að tala um, þ.e. hvernig haga eigi skattlagningu á atvinnufyrirtæki svo ég tali ekki um hvernig eigi að haga stjórnun á fiskveiðum í landinu. Þar þurfum við alltaf að vinna að því að endurskoða hluti og stuðla að því að við stjórnum fiskveiðum sem hagkvæmast á hverjum tíma. En það er svolítið einkennilegt þegar menn koma í upphafi umræðu og hafa höndlað allan sannleikann og boða að þeir viti nákvæmlega hvað eigi að gera. Hér eigi að stofna til mikillar skattheimtu og búa til nýtt réttlæti með því að draga peninga inn í ríkissjóð og koma svo í lok umræðunnar og segja: Við meintum ekkert af þessu, við erum bara að tala um að skipa nefnd sem getur skoðað alls konar hugmyndir sem geta gengið út og suður og stangast hver á aðra. Það er það eina. Við höfum enga skoðun og enga stefnu. Við ætlum bara að skipa nefnd til að skoða hluti. En umræðan byrjaði á því að menn hefðu aldeilis höndlað réttlætið, taka ætti nógu mikla skatta og deila nógu miklu út úr ríkissjóði. Svo koma menn í lokin og segja: Við ætlum bara að skipa litla nefnd til að skoða allt mögulegt og við höfum enga skoðun.