Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:21:33 (1017)

1995-11-17 14:21:33# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:21]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Tillaga flutningsmanna er sérkennileg en ástæðan er áreiðanlega sú að valdmörk á milli annars vegar framkvæmdarvaldsins og hins vegar löggjafarvalds hafa verið nokkuð til umræðu á undanförnum árum. Tekið hefur verið á þessum atriðum með ýmsum hætti eins og með gerð fjáraukalaga, reglum um framkvæmd fjárlaga o.fl. sem menn kannast við úr sölum hins háa Alþingis. Gerð framkvæmdasamnings er ekki í fullu samræmi við þrengstu túlkun stjórnarskrárákvæðis sem gerir ráð fyrir að fjárlög nái til eins árs. Hins vegar er rekstur ríkisins orðinn umfangsmikill og verður ekki lengur bundinn við eitt ár. Eðlilegt hefur verið talið að gera verksamninga og samninga milli ríkis og sveitarfélaga til að tryggja eðlilega verkáfanga í framkvæmdum sem ná út fyrir fjárlagaárið. Í reynd er ákvæði um þetta í lögum um opinberar framkvæmdir í 12. gr. þar sem gert er ráð fyrir þessu. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þegar um er að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og annarra aðila er eigi heimilt að hefja opinbera framkvæmd fyrr en fé hefur verið veitt til hennar á fjárlögum og undirritaður hefur verið samningur viðkomandi ráðuneytis og aðilans með áritun fjmrn. er tryggi að fjármagn verði handbært á framkvæmdatímanum í samræmi við greiðsluáætlun skv. 7. gr.``

Hér er rætt um verksamning milli aðila. Undanfari slíkra samninga hefur yfirleitt verið skilgreining á verkefnum, sbr. ákvæði laga um opinberar framkvæmdir sem ég minntist á, og komi til afgreiðslu í samstarfsnefnd, sem er lögboðin nefnd um opinberar framkvæmdir. Í henni á þingið fulltrúa samkvæmt lögunum, form. fjárln., en hefur verið túlkað sem formaður eða staðgengill hans. Samningar sem hafa verið gerðir hafa náð til hinna ýmsu stiga byggingarframkvæmdanna. Þannig ná sumir þeirra til fullbúinnar byggingar en aðrir aðeins til fyrsta áfanga í stærra verki án þess að fyrir liggi samningur um verklok.

Nú hefur ríkisstjórnin sett sér ákveðin markmið í ríkisfjármálunum. Samkvæmt þeim er stefnt að því að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum á tveimur árum. Í því fjárlagafrv., sem liggur fyrir Alþingi, má sjá ýmis merki þessa stefnumiðs og þar með talið endurskoðun á ýmsum verkefnum ríkisins. Auðvitað er auðvelt þegar ríkið á ekki hlut og þarf ekki að spyrja aðra. Heilbrigðisútgjöld eru eins og allir vita verulega stór þáttur í rekstri ríkisins og í frv. birtist sú stefnumörkun heilbrrn. að draga úr nýframkvæmdum meðan ríkisstjórnin er að marka stefnu í rekstri þessa málaflokks. Til að fylgja þessari stefnumörkun eftir er nauðsynlegt að leita eftir endurskoðun á ýmsum framkvæmdasamningum sem gerðir hafa verið við sveitarfélög á undanförnum árum. Að öðrum kosti þarf að sjálfsögðu að ná fjármunum til þessara verkefna og þeir verða ekki teknir nema þá úr rekstri eða af tilfærslum ráðuneytisins og það veit ég að 1. flm. ályktunarinnar veit.

Þessi nýja stefna byggðist m. a. á því að hlífa rekstri og tilfærslum, þ.e. að nýta betur þær byggingar og þá starfsemi sem fyrir hendi er og vera ekki að byggja ný hús á sama tíma og því er haldið fram af heilbrigðisyfirvöldum að verið sé að loka annarri starfsemi, a.m.k. hluta ársins. Ég tel skynsamlegt að nýta byggingar betur, skipuleggja starfsemina sem í þeim er og styð þess vegna heilbrrh. í þessum ætlunum hennar.

Verði ekki fallist á að breyta samningum sem eru fyrirliggjandi þá verður, eins og ég sagði, að taka þá fjármuni af öðrum liðum viðkomandi ráðuneytis og er þá minna til reksturs en ella. Það liggur í hlutarins eðli vegna þess að fjármunir sem þarna sköpuðust voru notaðir í aðra þætti heilbrigðisstarfseminnar í fjárlagaundirbúningnum. Ég vek sérstaka athygli á því að ríkið borgar 85% af byggingarkostnaðinum, sveitarfélögin 15% og ríkið borgar allan reksturinn að því er ég best veit. Auk þess greiða auðvitað sjúklingar sem viðskiptamenn stofnananna lítinn hluta kostnaðarins. Hér er því ekki eins og það séu tveir aðilar að eigast við sem eru jafnir. Annar aðilinn er nánast að leggja allt fram en hinn smámuni.

Hér hefur nokkuð verið dregið inn í umræðuna dæmið úr Keflavík. Þar er tilgangurinn að breyta samningi og tilgangurinn með því er að fá snemma nýtanlegan áfanga fyrir minni fjármuni til þess að geta tekið hann í gagnið fyrir það sem brýnast er á staðnum. Annars má búast við að byggingin taki langan tíma og mörg ár líði þar til byggingin verði tekin í full not enda er samningurinn fyrst og fremst samningur um fyrsta áfanga byggingarinnar og fyrsti áfanginn skilar ekki húsnæðinu í nothæfu ástandi því þá á eftir að setja allt inn í húsið.

Ég verð að harma þær frásagnir sem hafa heyrst frá fundi mínum og embættismanna ráðuneytisins og fulltrúa Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ég tel að þar hafi því miður það gerst að ummæli mín á fundinum hafi verið slitin úr sambandi því tilgangur minn á þeim fundi var afskaplega einfaldur. Hann var að reyna, sem mér sýnist að hafi ekki tekist, að sannfæra þá ágætu Suðurnesjamenn sem sóttu þennan fund um það að stefna heilbrrh. væri út af yfir sig ágæt og það væri skynsamlegra fyrir alla aðila að fara að tillögum heilbrrn.

Sumir þeirra sem sóttu fundinn hafa kosið að túlka ummæli mín og það sem fram fór á fundinum með sínum hætti. Ég harma það og mér þykir það leitt. Ég er ekki vanur slíkri framkomu en auðvitað verða menn sem eru á fundum að hafa leyfi til að túlka það sem þeir telja að hafi gerst á fundinum á sinn hátt en ég hlýt að læra af þeirri reynslu og meta hana á minn hátt.

Í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir þá kemur þetta mjög glögglega fram, bæði á bls. 7 og 11. Það er hægt að líta á það um hvað samið var þegar undirritaður var samningur um D-álmu. Þar segir: ,,Samningurinn tekur til fyrsta áfanga verksins sem er fokhelt hús fullfrágengið að utan ásamt frágangi lóðar.`` Það var það sem þessi samningur snerist um, ekki að ganga alla leið þó að í grunninum sé tekið hverjar séu áætlanir um heildarkostnað hússins.

Ég vil bara að lokum segja það að ég vona að samkomulag takist um æskilegar breytingar. Ég vil einnig benda á að það er sérkennilegt að sjá að það er hvergi minnst á samning um Barnaspítala Hringsins í þessu plaggi og það væri full ástæða til að spyrja hv. flm. hvernig á því standi en ég þykist vita skýringarnar.

Ég vil að endingu segja það, virðulegur forseti, að mál af því tagi sem hér er til umræðu eiga að vera til umræðu þegar 1., 2. og 3. umr. fjárlaga fer fram og til afgreiðslu í fjárln. Það er þar sem umræður af þessu tagi hljóta að fara fram, bæði hvað varðar samninga um heilbrigðisstofnanir svo og aðra samninga sem ríkið hefur gert við sveitarfélög eða aðra aðila.