Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:47:20 (1026)

1995-11-17 14:47:20# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:47]

Drífa Sigfúsdóttir:

Herra forseti. Í þáltill. sem 1. flm., hv. 9. þm. Reykn., kynnti hér er talað um að staðfesta 11 samninga af hálfu framkvæmdarvaldsins. Í greinargerðinni er talað um að verið sé að eyða óvissu en í mínum huga skapar þáltill. frekar óvissu og veikir þessa samninga.

Ég vil nefna 2. tölul. tillögunnar þar sem er um að ræða tvíhliða --- ég endurtek, tvíhliða samning milli ríkis og sveitarfélaganna á Suðurnesjum um byggingu D-álmu við Sjúkrahús Suðurnesja. Samningurinn er af hálfu ríkisins undirritaður bæði af hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh. Þessi samningur var gerður eftir þref sem stóð á annan áratug. Fyrst var rætt um fjögurra hæða byggingu, síðan endaði það í tveimur hæðum og kjallara. Suðurnesjamenn hafa enga endurhæfingaraðstöðu. Við búum við mjög erfið skilyrði varðandi heilsugæslulækna. Það eru mjög fáir heilsugæslulæknar á íbúa og að ýmsu leyti er þjónustunni ábótavant. Hún þyrfti að vera mun betri en hún er í dag, sérstaklega ef við viljum miða okkur við aðra landsmenn.

Við höfum möguleika á að bæta úr því sem brýnast er að framkvæma. Þarna er ekki verið að reisa neina glæsihöll, heldur aðeins að koma húsi yfir það sem nauðsynlegast er. Sveitarfélögin taka að sér að fjármagna þennan 1. áfanga og ég fullyrði að þetta er skynsamleg niðurstaða.

Sú tillaga sem sett hefur verið fram af formanni byggingarnefndar er með öllu óásættanleg. Hún hefur verið kynnt sveitarstjórnum á Suðurnesjum og stjórn sjúkrahússins og þær hafa hafnað þeirri tillögu. Hins vegar hafa sveitarstjórnarmenn lýst sig tilbúna til að finna leiðir til þess að þetta sjúkrahús verði ódýrara í rekstri í framtíðinni, t.d. með einangrun að utan og öðrum tilfæringum sem kynnu að reynast skynsamlegri. En fermetratalan sem þarna kemur fram er sá lágmarksfermetrafjöldi sem þarf fyrir þessa byggingu. Um það eru Suðurnesjamenn sammála.

Hér vék hæstv. fjmrh. alloft að ummælum mínum og ég hef einnig hlustað á alllangan þátt sem fluttur var í útvarpi Bros á Suðurnesjum. Þar fannst mér margt sem ég hefði getað gert athugasemdir við í máli ráðherra, en ætla ekki að gera hér. Hins vegar er ég ekki vön að fara með fleipur og það sem fram kom í máli mínu á bæjarstjórnarfundi sem hér var vitnað til hlustuðu þeir á sem voru í sendinefndinni á fundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Eftir það sömdu þeir bókun og ég vildi, með leyfi forseta, lesa niðurlagið, sem hljóðar svo:

,,Stjórnin lýsir undrun sinni á ummælum fjmrh. á Brosinu þann 8. nóvember sl. þar sem lýsing forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á fundinum með ráðherra var sönn að öllu leyti og ekkert ofsagt.`` Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þau ummæli sem hann hefur síðar látið falla í minn garð.

Ágæti herra forseti. Þjóðin treystir því að undirskriftir ráðherra standi, og hvað þá heldur samningar sem tveir ráðherrar undirrita. Ég neita að trúa öðru, þrátt fyrir ýmis orð sem fallið hafa. Og því fagna ég þeim ummælum sem hæstv. fjmrh. hefur viðhaft hér. Ég er sammála flm. tillögunnar um að standa skuli við gerða samninga, á því leikur enginn vafi. En ég er ósammála þeirri aðferð sem hér er kynnt því að þá skapast, að mínu mati, fleiri grá svæði um hvaða samninga eigi að leggja fyrir Alþingi og hverja ekki. Verður þá mismikið að marka samninga? Já. Á að leggja alla samninga fyrir eða bara suma? Hvers virði eru þá samningar framkvæmdarvaldsins eða undirskriftir ráðherra? Mundu þá ekki íbúar þessa lands velta fyrir sér hvers virði undirskrift fjmrh. er eigendum ríkisskuldabréfa þegar ber að greiða á gjalddaga?