Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:05:54 (1031)

1995-11-17 15:05:54# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:05]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er komið inn á mál sem er sannarlega ástæða til að ræða. Það er mjög nauðsynlegt að taka á því með einhverju móti hvort það sé í rauninni rétt að framkvæmdarvaldið geti tekið sér slíkt fjárveitingavald sem felst í samningagerð af þessu tagi, að vísu með fyrirvara um samþykki Alþingis, og hvernig eigi að haga slíku að öðru leyti. Ég hef að vísu miklar efasemdir um að rétt sé að standa að málum með þeim hætti sem hér er lagt til þó það sé allrar umræðu vert. Reyndar væri samþykkt Alþingis með þessu móti því miður engin trygging fyrir efnd samninga af þessu tagi. Við höfum svo mörg dæmi fyrir því að Alþingi samþykki eitt og annað og setji heilu lagabálkana sem það eða að minnsta kosti meiri hlutinn treystir sér svo ekki til að standa við með nauðsynlegum fjárveitingum. Ég sé fyrir mér að með þessu gæti einfaldlega lengst svokallaður ,,þrátt fyrir kafli`` í tengslum við fjárlög og lánsfjárlög þar sem meiri hluti Alþingis er í raun að ógilda eða ganga gegn þeim vilja Alþingis sem hefur verið markaður með lögum. Ég nefni fræg dæmi eins og lögbundinn tekjustofn Ferðamálaráðs, Kvikmyndasjóðs og Framkvæmdasjóðs aldraðra og ég nefni bensíngjald og ýmislegt fleira mætti tína til. Það er því sannarlega engin trygging fyrir efnd á einu né neinu þótt Alþingi staðfesti einhverja samninga sem ráðherrar hafa gert ef þeir vilja ekki gera það sjálfir því eins og við vitum dansar meiri hlutinn meira og minna eftir þeirra pípu.

Hitt er svo annað mál að ég tel brýnt að taka framkvæmdir á vegum ríkisins fastari tökum en verið hefur. Þessi þjóð hefur verið svo önnum kafin við að framkvæma og fjárfesta síðustu áratugina að hún hefur ekki mátt vera að því að hafa stefnu í þessum efnum. Kröfurnar hafa verið endalausar og þarfir og markmið hafa meira og minna verið skilgreind jafnóðum og raunar verið síbreytileg. Það er auðvitað lygasögu líkast þegar litið er yfir framkvæmdir síðustu áratuga, virkjanir, hafnir, vegir og brýr, opinberar stofnanir, íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, þetta hefur allt saman verið unnið meira og minna eftir hendinni án ítarlegra skipulagsáætlana og án þess að langtímasjónarmið væru lögð til grundvallar. Markmiðið í framkvæmdum þess opinbera virðist hafa verið að freista þess að gera alla ánægða, mæta kröfum allra að einhverju leyti með vegarspotta hér og hafnargarði þar, íþróttahús, skóla, heilsugæslustöð á hverjum stað. Niðurstaðan hefur orðið sú að allt of margar framkvæmdir hafa verið í gangi í einu, þær hafa tekið allt of langan tíma og þær hafa þar með orðið dýrari en þær hafa þurft að vera og jafnvel verið orðnar úreltar áður en þær komast í gagnið.

Á nokkurra ára bili byggðu menn heimavistarskóla um allt land, einn skóla fyrir hvern þingmann var stundum sagt. Um leið var verið að bæta vegakerfið og heimavistarskólarnir voru vart komnir í gagnið þegar stefnan varð sú að keyra öll börn daglega í skólann. Í sumum þeirra hafa aldrei gist skólabörn nema skyndilega hafi gert óveður eða orðið ófært. Heimavistirnar gagnast að vísu ágætlega í ferðaþjónustunni á sumrin en það var náttúrulega ekki upphaflega markmiðið.

Enn má nefna heilsugæslustöðvar sem voru byggðar um allt land á tiltölulega fáum árum. Þær hafa vissulega orðið til mikilla hagsbóta fyrir almenning en hefðu betur kannski verið byggðar með svolítið meiri forsjálni og fyrirhyggju. Staðlar ráðuneytanna réðu stærð og búnaði en tóku allt of lítið tillit til rekstrarkostnaðar og afleiðingin er víða sú að viðkomandi sveitarfélag er að kikna undan kostnaði.

Ástæða alls þessa er vitanlega sú að stefnumótun hefur engin verið. Auðvitað hefur verið reynt að styðjast við áætlanir á einstökum sviðum svo sem vegáætlun, hafnaáætlun, flugmálaáætlun o.s.frv. en engin tilraun hefur mér vitanlega verið gerð til að skipa framkvæmdum í forgangsröð með tilliti til allra þátta sem geta skipt máli svo sem þróun byggðar, samgangna eða atvinnumála. Þarna er hvert ráðuneyti að sýsla með sitt og hvert sveitarfélag otar sínum tota. Ef vel ætti að vera þyrfti langtímastefnumörkun og skipulegt samráð milli ráðuneyta til að reyna að tryggja samfelldar framkvæmdir sem ganga ekki þvert hverjar á aðra eins og dæmi eru með heimavistirnar og vegina. Þá er nauðsynlegt að stefna að því að verkefnum ljúki á sem skemmstum tíma svo að fjárfestingar nýtist sem best. Það er bæði dýrt og heimskulegt að hafa margar stórar og fjárfrekar framkvæmdir í gangi í senn sem tekur áratugi að ljúka. Við þurfum auðvitað að venja okkur af mikilmennskuæðinu sem rennur stundum á hönnuði og aðra framkvæmdaaðila sem virðast standa í þeirri trú að við Íslendingar séum moldríkir. Það er náttúrulega í samræmi við þessi vinnubrögð að ríkisvaldið skuli skyndlega ætla að skera niður framlög til stofnkostnaðar um nær 2 milljarða á milli ára og ekki að undra þótt ýmsir séu skelfingu lostnir því að á sama tíma er samdráttur hjá sveitarfélögunum. Að mínu mati er mikil bjartsýni að halda að fyrirtæki í einkarekstri hafi bætt hag sinn svo mjög að þau muni fylla það skarð í framkvæmdum sem hið opinbera lætur eftir sig með þessum hætti.

Þetta eru hugleiðingar í tilefni af þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Tilefni hennar er auðvitað deginum ljósara og hefur komið fram í umræðunni. Ráðherrar hafa undirritað samninga og nú hafa ýmsir ástæðu til að ætla að þeir ætli ekki að standa við þá. Það sýnir auðvitað fjárlagafrv. Hæstv. fjmrh. fór orðum um nauðsyn þess að skoða málin til enda, hvernig menn ætluðu að ljúka byggingum og hvernig ætti að standa síðan að rekstri slíkra bygginga og ég get fyllilega tekið undir það. Hann talaði um nauðsyn þess að athuga hvort ekki væri hægt að gera skynsamlegar breytingar á samningum sem þegar stæðu undirskrifaðir. En hæstv. ráðherra ætti að vita það sem við þingmenn Reykn. vitum að það er margbúið að fara yfir að minnsta kosti þann samning sem hefur verið hér töluvert til umræðu og er nú kannski upphafið að tillögunni. D-álman við sjúkrahúsið á Suðurnesjum hefur verið á dagskrá árum saman. Þetta var eitt af aðalmálum þessa kjördæmis í mínu fyrra lífi sem þingmaður eins og ég hef nú stundum orðað það. Þá var þetta eitt af aðalmálunum og til umræðu á hverju einasta ári og það er margbúið að fara yfir þetta mál. Það er margbúið að breyta áætlunum um þessa byggingu, minnka kröfurnar til að koma til móts við þau sjónarmið að það verði að hafa sem minnstan kostnað af byggingunni og tryggja rekstur hennar. Það sem við er að eiga í þessu efni er að sjúkrahúsið á Suðurnesjum er af óhagkvæmri stærð sem veldur óhagkvæmni í rekstri og það er ekki í neinu samræmi við þörf og við stærð þess héraðs sem því er ætlað að þjóna. Vegna þess að það hefur gengið svo illa að fá fjármagn til stækkunar hefur svo sannarlega hvað eftir annað verið farið yfir þær áætlanir og þessi bygging minnkuð og reynt að draga saman á allan hátt. Þessi hegðun stjórnvalda og meðferð á lögum og samningum grefur undan trausti almennings til Alþingis og spillir fyrir samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga. Auðvitað eiga menn að standa við undirritaða samninga.