Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:21:32 (1033)

1995-11-17 15:21:32# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:21]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á orðum hv. þm. Kristjáns Pálssonar þegar hann gerði þingheimi grein fyrir því að við umfjöllun um forsendur fjárlaga í stjórnarflokkunum hafi hann og aðrir þingmenn Sjálfstfl. samþykkt það að skera niður framlög til stofnkostnaðar upp á þær 100 millj. sem á vantar samkvæmt þeim samningum sem í gildi eru. En hann lét þess enn fremur getið að ekki hefði verið sundurliðað hvar niðurskurðurinn ætti að koma fram. Ber að skilja orð hans þannig að hann hafi samþykkt þetta í þeirri trú að ef hægt væri að skera niður einhvers staðar annars staðar en í D-álmu þá væri hægt að sætta sig við það? Ég spyr að gefnu tilefni: Gæti hann fellt sig við niðurskurð í framkvæmdum við heilsugæslustöð í Kópavogi sem er nú á fullum skrið og verklok væntanleg á næsta ári eða hvaða samningar eru það á landsvísu af þeim 11 sem í gildi eru sem hv. þm. og þá væntanlega aðrir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna voru að saxa á fyrst og síðast? Menn geta ekki hlaupið undan alvöru málsins með almennum yfirlýsingum á borð við þetta, virðulegi forseti. Það er ekki hægt. Það er of létt í vasa.

Hv. þm. Drífa Sigfúsdóttir og nú síðast hv. þm. Kristján Pálsson, þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, tala um að þau séu opin til umræðu um að gera endurskoðun á þessum samningum. Ég minni á að á þeim rúmu 10 árum, sem undirbúningur hefur verið í gangi, hafa farið yfir 20 millj. í hönnunarkostnað í þetta mannvirki. Virðulegi forseti, það er komið nóg, við höfum hannað alveg nóg. Við skulum láta hendur standa fram úr ermum.