Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:28:01 (1036)

1995-11-17 15:28:01# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil upplýsa að ég kom ekki beinlínis nálægt þeim samningi sem var gerður var 3. apríl sl. Aftur á móti hef ég komið nálægt þeirri umræðu sem hefur snúist í kringum þetta á undanförnum árum og lagt ríka áherslu á að staðið yrði við það samkomulag sem gert var við sveitarfélögin á Suðurnesjum árið 1990 um uppbyggingu á heilsugæslumálum Suðurnesjamanna. Þar var verkefni D-álmu eitt af forgangsmálum eftir byggingu Víðihlíðar í Grindavík.

Við afgreiðslu þingflokks Sjálfstfl. á sínum tíma um niðurskurð á framkvæmdum var fyrst og fremst hugsað um samninga sem var ekki búið að staðfesta. Ég skildi það allan tímann þannig ef samningar væru á undirbúningsstigi yrðu þeir ekki staðfestir en staðið yrði við samninga sem væru frágengnir ef ekki næðist samkomulag við aðila um neina breytingu. Ég held að búið sé að hamra alveg nægilega mikið á þessu þannig að í raun sé ástæðulaust að halda áfram með þetta mál og að við séum að tefja það enn meir með einhverjum frekari málflutningi. Aftur á móti skora ég á hæstv. heilbrrh. að koma þeirri nefnd, sem sér um undirbúning að byggingu D-álmunnar, af stað því að ég held að nefndin hafi beðið ansi lengi eftir því að fá grænt ljós á að hefja framkvæmdir.

Ég þykist vita að hæstv. heilbrrh. vilji að þær framkvæmdir hefjist og ég held líka að við þingmenn Reykn. höfum beðið nokkuð lengi eftir því að fá boð um næsta fund.