Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:34:04 (1039)

1995-11-17 15:34:04# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég harma að hæstv. fjmrh. hefur ekki séð sér fært að sitja þessa umræðu, sérstaklega þar sem hann kom með ótrúlega ósvífnar aðdróttanir í garð fyrrv. heilbrrh. í andsvari áður en hann hvarf á braut. Hann rakti mjög ítarlega í athugasemd sinni um byggingu barnaspítala hvernig samningur hefði verið gerður þar, hverjir hefðu komið að þeim samningi og gerði Alþingi alveg klárlega ljóst að heilbrrh., Reykjavíkurborg og Hringurinn stóðu saman að þeim samningi og var með ósvífnar dylgjur um hvernig stæði á því að sá samningur væri ekki í greinargerð með tillögunni. Þess vegna, virðulegi forseti, leyfi ég mér að lesa fyrstu þrjár línurnar í fskj. I á bls. 3 í þessu þskj.:

,,Ráðuneytið vísar til bréfs frá 26. okt. sl. þar sem beðið er um skrá yfir þá samninga sem heilbrrn., með eða án aðildar fjmrn., hefur gert um nýbyggingar á vettvangi heilbrigðismála eða um meiri háttar viðhald á mannvirkjum sem notuð eru til heilbrigðisþjónustu.``

Það hlýtur að verða okkur þingmönnum umhugsunarefni að þar sem þessar þrjár skýru línur standa í þskj. í erindi frá heilbrrn. hvernig standi á því að samningar sem gerðir voru án aðildar fjmrn. hafi ekki birst hér í þskj.

Ráðherrann sagði einnig að nauðsynlegt væri að breyta og átti þar við D-álmu en ef menn berja haus við stein er það skylda ráðherranna að leggja fram tillögur í samræmi við samninginn. Þetta er það sem er punctum saliens í þessu máli sem snýr að D-álmunni og ég ætla aðeins að nefna að allir samningar eru undirritaðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Í því tilfelli sem mest hefur verið rætt um hér hafa allir þingmenn verið sáttir við þá framkvæmd. En þegar framkvæmdarvaldið setur sig í stellingar til að breyta fyrri áformum og kemur ekki með tillögur í fjárlagafrv. í samræmi við áform og samninga eru þingmenn, Alþingi, löggjafarvaldið ekkert spurð nema að því leyti sem þau fá tækifæri til að koma með athugasemdir í fjárlagaumræðunni sjálfri eins og ráðherrann kvartaði um að verið væri að víkja frá með tillöguflutningi af þessu tagi.

Ágæti forseti. Það er umhugsunarefni fyrir Alþingi þegar ráðherra lýsir því yfir að ríkisvaldið hafi sett sér markmið, nýja stefnumörkun og þess vegna dragi heilbrrh. úr framkvæmdum sem var áður búið að ákveða með undirskriftum meðan unnið er að stefnumörkun og endurskoðun framkvæmda. Í raun sagði ráðherrann þau orð að þrátt fyrir allt sem sagt hefur verið um að vera bundinn af undirskriftum að ríkisvaldið ætlaði sér að gera breytingar og þess vegna væru ekki settar fram tillögur í fjárlögum.

Ég ætla aðeins að nefna það áður en ég vík frá D-álmu að í yfirlýsingu sem hefur verið send til þingmanna Reykn. segir í tveimur línum: ,,Samningurinn um byggingu D-álmu var undirritaður 3. apríl 1995. Allar hugmyndir um breytingar á samkomulaginu í trássi við vilja heimamanna eru í raun brot á honum.`` Vegna þess hvað hefur verið rætt um orð hv. 7. þm. Reykn., Drífu Sigfúsdóttur frá Reykjanesbæ, skildi ég orð hennar þannig um breytingu að lágmarksfermetrafjöldi væri sá sem hér um ræddi og ekki væri til umræðu að fara í áfanga sem þýddi annað.

Það er óþolandi staða sveitarfélaga gagnvart ríkisvaldinu að sveitarstjórnarmenn hafa þurft að sækja á við ríkisvaldið um alla þætti sem snúa að sameiginlegum framkvæmdum og sameiginlegum verkefnum og allir sveitarstjórnarmenn eru orðnir þreyttir á því sem þeir kalla samkrull við ríkisvaldið. Á árum áður fengu sveitarfélög vilyrði fyrir þátttöku ríkisins í verkefnum sem ríkisvaldið tók þátt í að fjármagna að hluta eða mestu leyti. Þau fóru í gang með framkvæmdir upp á endalaus loforð um framlög sem komu seint og illa. Það er frægt þegar sundlaugin í Kópavogi fékk 5.000 kr. í framlög þrjú ár í röð. Um síðir varð mönnum ljóst að það þýddi ekkert að standa í framkvæmdum á eigin reikning upp á greiðslur ríkisins og sveitarfélögin hafa litið svo á að þá sé málið í höfn þegar fyrir liggur undirritaður samningur milli ríkis og sveitarfélaga. Örþreytt af fyrra fyrirkomulagi hafa þau gengið þá braut svo sem unnt er að leita eftir samningum við ríkið og líta svo á að undirritaðir samningar standi. Það er núna ljóst að slíkur undirritaður samningur tryggir ekkert. Þess vegna er gripið til þess ráðs að flytja tillögu þá sem hér er til umræðu að Alþingi axli sína ábyrgð.