Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:48:39 (1041)

1995-11-17 15:48:39# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:48]

Drífa Sigfúsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 8. þm. Reykn. að sú kerfisbreyting sem lögð er til í þáltill. sé ekki til bóta. En vegna orða hæstv. fjmrh. og orða hv. 9. þm. Reykn. varðandi afstöðu mína um breytingar á þeim samningi sem fyrir liggur, ætla ég að ítreka að ég bætti við þeim orðum að það væri hægt að breyta honum, svo framarlega sem við fengjum meiri peninga. Það skiptir miklu að hafa það í huga. Auk þess tók ég fram að sá fermetrafjöldi sem rætt var um er sá lágmarksfermetrafjöldi sem þarf til að koma fyrir sæmilega viðunandi þjónustu og leysa úr brýnasta vandanum.

Ég ítreka að það er búið að finna skynsamlega lausn. Allt tal um að Suðurnesjamenn eigi að setjast niður og finna skynsamlega lausn stenst ekki. Það er búið að finna hana. Það sem ég átti við með því að við værum tilbúin til að ræða breytingar er að heimamenn eru ætíð tilbúnir til að ræða við ráðherra. En eins og ég hef áður sagt er ég þar að tala um smávægilegar lagfæringar eða breytingar á teikningum varðandi einangrun að utan, og einhverja smávegis tilfærslu. Að öðru leyti vilja heimamenn að samningurinn standi. Ég ítreka það vegna einhvers misskilnings sem kom hér fram. Fermetrafjöldinn sem samþykktur er er lágmarkstala. Við erum aðeins tilbúin til að tala um lagfæringar. Við getum því miður ekki skorið niður framkvæmdina. En eins og hæstv. fjmrh. minntist á, erum við til viðræðu um breytingar, einkum ef við fáum meiri peninga.

Vegna orða hæstv. fjmrh. fagna ég því að væntanlega munum við fá að bjóða út þetta verk á næstunni.