Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:51:13 (1043)

1995-11-17 15:51:13# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:51]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Mér þykir tilhlýðilegt að minna þingheim á að Reykjavík er líka á landinu og það eru vissar framkvæmdir sem hafa frestast þar, ekki síður en annars staðar. Þá langar mig að minnast á það sem efst er á baugi og í forgangi hjá ráðuneytinu í byggingum í heilbrigðisþjónustu í Reykjavík og það er heilsugæslustöðin í Fossvogi. Það er mjög langur aðdragandi að því að koma nýju húsnæði yfir þá starfsemi, sem hefur verið í byggingu slysadeildar Borgarspítalans undanfarin 15 ár. Núverandi húsnæði er um 250 fermetrar og þótt vel sé búið að læknum sem þar vinna, eru hjúkrunarfræðingar, ritarar, móttökuritarar í slíkum þrengslum að í mörg ár hefur það verið til vansa auk þess sem stöðin nær ekki að þjóna öllu því svæði sem henni ber. Það er því löngu viðurkennt af ráðuneytinu að þetta sé forgangsverkefni.

Lengi stóð á því að finna lóð. Eins og menn vita liggja lóðir ekki á lausu í löngu byggðum og grónum hverfum í borg á borð við Reykjavík. Loksins, þegar lóð hefur verið fundin, frátekin og henni úthlutað og undirritaður hefur verið samningur milli heilbrrn. og Reykjavíkurborgar er ansi súrt að sitja undir því að fresta framkvæmdum. Auk þess er fjármagn fyrir hendi, að vísu ekki fyrir allri framkvæmdinni en fyrir hluta hennar. En auðvitað þurfa menn að vera ábyrgir í fjármálum og menn reyna að vera það í Reykjavík ekki síður en annars staðar. Ef fjármagn vantar, þá er erfitt að fara af stað. En í þessu tilviki sem ég nefndi, þá er visst fjármagn til staðar og hefur verið á fjárlögum undanfarin 2--3 ár.

Ástæða þess að ég minnist á þetta eru umræður sem hér hafa farið fram um stöðu sveitarfélaganna, um afstöðu sveitarstjórnarmanna og það traust sem sveitarstjórnarmenn vilja geta haft til samninga af þessu tagi við ríkisvaldið. Ég var borgarfulltrúi þegar lögum var breytt þannig að verkefni heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa voru flutt svo til alfarið yfir til ríkisins. Þar urðu breytingar sem menn höfðu orðið sammála um að þyrfti að gera. Ástæðan var sú að rekstur og stofnkostnaður skiptist milli ríkisins og sveitarfélaga í hlutföllum sem voru óþarflega flókin og menn voru sammála um að eðlilegt væri að koma þessu sem mest á eina hönd. En mistökin sem voru gerð, því miður, voru þau að setja þau í hendur ríkisins í staðinn fyrir að flytja fjármuni yfir til sveitarfélaganna og láta sveitarfélögin sjá um þennan málaflokk. Það held ég að sé tímabært að menn taki til endurskoðunar og þess vegna langaði mig að kveðja mér hljóðs.