Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:54:58 (1044)

1995-11-17 15:54:58# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:54]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað, en get auðvitað ekki leynt undrun minni yfir því að hæstv. heilbrrh., sem hefur að sönnu setið undir þessum umræðum, telur ekki ástæðu til að leggja neitt til þessara mála. Það er býsna æpandi þögn, virðulegi forseti, og ekki síst þegar horft er til þess að hún hefur trekk í trekk farið fram með yfirlýsingar einmitt í mörgum þeim málum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Það er kannski tákn um það að þessi hæstv. fagráðherra ætli að hafa þann hátt á að láta hæstv. fjmrh. sjá um að svara fyrir yfirlýsingar sínar og sjá um að halda um taumana, bæði í heilbrn.- og trn. Ég vona svo sannarlega að þannig sé ekki í pottinn búið, en ég hygg samt að hjá því verði ekki komist að óska eftir því að hæstv. fagráðherra lýsi yfir afstöðu sinni til þeirrar tillögu sem hér liggur frammi og þeirrar stóru spurningar sem menn hafa verið að velta upp og ræða fram og til baka. Ég átti ekki von á því að ég þyrfti sérstaklega að kalla eftir því, en þar sem það verður ekki umflúið, geri ég það hér með formlega, virðulegur forseti. Í þeirri trú að svo gangi eftir, væri fróðlegt að fá svör hæstv. heilbrrh. einmitt við því hvers vegna samning ráðuneytisins við kvenfélagið Hringinn og Ríkisspítalana sem undirritaður var á vordögum 1994 er ekki að finna í þessari umbeðnu skrá frá ráðuneytinu. Enn fremur var það nefnt í umræðu af síðasta hv. ræðumanni að áform um byggingu heilsugæslustöðvar í Fossvogi væru, eftir því sem hún mundi best, einnig undir sama hatti. Ég þori ekki að fullyrða neitt um það, en það væri fróðlegt að fá skýr svör við því hver staða þeirra mála er.

Hæstv. fjmrh. gerði að umtalsefni, með einkar ósmekklegum hætti vil ég segja, byggingaráform nýs barnaspítala. Það gleður mig að fá tækifæri til að að fara nokkrum orðum um það stóra verkefni og væri raunar fróðlegt ef hæstv. heilbrrh. notaði sér ferðina hingað til að gera grein fyrir efnislegri afstöðu sinni til þess stóra máls, sem er búið að vera baráttumál Hringskvenna og raunar allra þeirra sem á annað borð þekkja til þeirrar aðstöðu sem sjúk börn hafa búið við á Landspítalanum, svo ég tali ekki um starfsfólk þar á bæ. Í tíð minni sem heilbrrh. lagði ég áherslu á að þessi mál fengju einhvern þann framgang sem gagn væri að. Ég fékk að vísu ekki mikinn stuðning frá hæstv. fjmrh. við þau áform, en því meiri stuðning frá hinum áhugasömu og ágætu Hringskonum og því fjölmarga fólki sem vill einmitt sjá hlutina hreyfast í þessu veru, m.a. forsvarsmönnum Ríkisspítalanna. Hæstv. heilbrrh. hefur gjarnan haft á orði í almennum umræðum um heilbrigðismál að nú sé nóg komið af steinkumböldum og steypuframkvæmdum, nú vilji hún sjá fjármunina renna frekar til umönnunar sjúkra. Það er einmitt það sem nýr barnaspítali og áform þar um gera ráð fyrir. Það er alls ekki gert ráð fyrir því að rekstrarkostnaður aukist. Þvert á móti. Í nýju, rúmbetra og nýtískulegra húsnæði ætti að gefast kostur á því að beita öðrum og heppilegri aðferðum við aðhlynningu sjúkra barna. Þetta hygg ég að hæstv. heilbrrh. eigi að vita ef hún hefur flett upp í gögnum í hinu háa ráðuneyti. Hafi hún ekki gert það, hvet ég hana til þess. Það er nú sannleikurinn um þetta mál.

[16:00]

Ég segi það enn og aftur vegna hávaða í hæstv. fjmrh. um þessi efni hér áðan, þar sem hann notaði tækifærið til þess að ráðast að mér persónulega fyrir að hafa ekki látið svo lítið að tala við hæstv. fjmrh. um þau mál. Þannig er það nú við þessa rammafjárlagagerð og það er slæmt, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér. Gert er ráð fyrir því að einmitt frumkvæði og ákveðið vald liggi í höndum fagráðherranna sjálfra og ég trúi því og vona að hæstv. heilbrrh. nýti sér það svigrúm sem hún hefur í þeim efnum því að það er auðvitað alþekkt í stjórnmálaumræðu síðustu ára að svo virðist með köflum að hæstv. fjmrh. hafi kannski minnst allra ráðherra að segja um fjárlögin hverju sinni að segja. A.m.k. stendur hann sjaldnast í stormum þegar kemur að því að verja umdeild mál. Þetta er alþekkt þannig að það er þá nýtt ef hann ætlar að fara mikinn í umræðum um þau stóru mál.

Þetta var um barnaspítalann og ég skal lofa hæstv. heilbrrh. því að ég skal vera mesti og besti bandamaður hennar um að það stóra mál geti fengið farsælan framgang hið allra fyrsta því að mér er kunnugt um það að sú byggingarnefnd sem skipuð var í kjölfar undirritunar á vordögum 1994 og var fagnað víða hefur unnið ötullega og allar forsendur eru þar núna klárar, t.d. að ganga til alútboðs. Hér hefur réttilega verið nefnt að Hringskonur vilja láta til sín taka með miklu og góðu framlagi og gera enn þá meira með almennri söfnun þannig að hér er auðvitað um stórt mál að ræða.

Virðulegi forseti. Þetta var ekki meginatriði þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir heldur fyrst og síðast það sem í henni stendur. Mér finnst ástæða til að undirstrika það mjög sérstaklega því að alþingismenn hafa það gjarnan á orði að virðingu þingsins þurfi að auka og að fólk í landinu geti tekið mark á þingmönnum sínum og hinu háa Alþingi. Þess vegna er kannski ekki síst af þeirri ástæðu mjög nauðsynlegt að hið háa Alþingi taki skýlausa afstöðu til þess að þær ákvarðanir sem þingið hefur verið þátttakandi í, m.a. við afgreiðslu fjárlaga sl. árs og með beinum fjárframlögum til þeirra samninga sem hér um ræðir, láti ekki framkvæmdarvaldið segja sér það árinu síðar að fjárlagaafgreiðslan á síðasta ári hafi verið plat, þetta hafi allt verið svo óskynsamlegt og lítið sem ekkert vit í málum. Ég læt ekki segja mér svona hluti enda hef ég ekki heyrt eitt einasta aukatekið orð um það í efnislegri umræðu hvaða samningar það eru af þeim 11 sem eru svona slæmir, hvað í þeim gerir það að verkum að ekki er hægt að láta þá ganga fram. Þessa faglegu umræðu hefur algerlega vantað. Menn hafa talað á almennum nótum um nýtanlegan áfanga eins og ætla mætti að þau hús sem rísa samkvæmt þessum samningum verði ónýtanleg. Það er aldeilis fjarri lagi. Í langflestum tilvikum hefur aðdragandinn verið langur og strangur og menn hafa gaumgæft alla þætti mála býsna vel þó að auðvitað geti menn haft einstakar skoðanir um einstök atriði. En þá væri fróðlegt að heyra hvaða samningar eru svona slæmir og hvað það er í þeim. Í þriðja lagi: Hvaða samningar af þessum 11 eru það, sem hæstv. heilbrrh. er núna að vinna í, 15 dögum fyrir 2. umr. fjárlaga að taka upp og endurmeta? Er það eingöngu D-álma, er það heilsugæsla í Kópavogi? Er það Fáskrúðsfjörður? Ég sting því inn í umræðuna að ég sakna þess mjög að hinir heitu baráttumenn fyrir þeirri framkvæmd, hv. þm. Egill Jónsson og hv. núv. formaður fjárln., Jón Kristjánsson, sem fóru mikinn í desembermánuði 1994 um mikilvægi þeirrar uppbyggingar, láti svo lítið að leggja orð í belg. En þeir gera það væntanlega á sama tíma og þeir gerðu í fyrra, þ.e. við 2. umr. fjárlaga og við fáum þá þessa ötulu baráttumenn fyrir uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í Austurlandi frá þeim eins og gerðist fyrir réttum 12 mánuðum. Eða eru það einhver önnur verkefni? Ég velti fyrir mér Höfn í Hornafirði og spurði eftir framkvæmdum þar sem eru á lokasprettinum. Á að stoppa þar? Eða hvar á að stöðva? Það vantar 100 millj. kr. Hvaða efnisleg og fagleg vinna er í gangi í ráðuneytinu í viðræðum við heimaaðila þar sem verið er að endurmeta þessar forsendur frá a til ö? Ég hlýt að óska eftir mjög skýrum svörum við því. Einmitt af þeim sökum að þessar spurningar hafa vaknað að þessi till. til þál. um að Alþingi sem er einasti lögformlegi aðilinn sem getur tekið af skarið og skýrt það út sem hæstv. ráðherrar, framkvæmdarvaldið, hefur gert óskýrt í samstarfi og samvinnu við opinbera aðila, sveitarstjórnarmenn, við forsvarsmenn þessara sjúkrastofnana og við almenning í landinu. Alþingi er einasti aðilinn sem getur tekið af skarið með þeim hætti.

Vissulega væri langbest að það væri einfaldlega þannig að hæstv. ráðherrar væru marktækir og að orð stæðu og undirskriftir þeirra sömuleiðis. Þá þyrftu menn ekki að eiga orðastað um þau málefni og hæstv. ráðherrar hefðu eins og okkar stjórnkerfi gerir ráð fyrir umboð meiri hluta Alþingis hverju sinni til þess að ganga frá þessum samningum og öðrum þeim gjörningum sem þeim er trúað fyrir. Auðvitað væri það albest en þannig er því miður ekki í pottinn búið, herra forseti. Þess vegna komumst við ekki hjá því að eiga þessa umræðu og láta mál ganga fram með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Þessi umræða hefur verið löng og ströng og þrátt fyrir allt nokkuð gagnleg því að ég held að það hafi komið skýrt fram að hæstv. fjmrh. hefur hrokkið til baka, gleypt ofan í sig allar stóru yfirlýsingarnar sem hann lét m.a. fara frá sér á fundi með sveitarstjórnarmönnum af Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga af Suðurnesjum. Hann hefur tekið þær allar til baka og það er vel og hefur lofað því núna að eitthvað sé að marka það þegar hann setur stafina sína undir samninga við sveitarstjórnarmenn og forsvarsmenn sjúkrastofnana. Það er vel.

Eftir sem áður stendur hin stóra spurning: Gildir það sama um hæstv. heilbrrh.? Ég vil líka láta í ljósi ánægju mína og þakklæti fyrir það að hv. þm. Sturla Böðvarsson, sem jafnframt er varaformaður fjárln., tók drengilega af öll tvímæli um afstöðu sína til þessara samninga. Það var samhljóma við það sem hann sagði á öðrum vettvangi utan þings á fundi um mannvirkjamál þar sem við vorum báðir. Þar sagði hann að vitaskuld yrði það tryggt við fjárlagagerðina við 2. umr. að staðið yrði við þær skuldbindingar sem ríkið hefði undirgengist.

Í bláendann hefur komið fram sú ábending af hálfu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að þetta mál ætti betur heima milli umræðna í fjárln. en heilbr.- og trn. Um það þori ég ekki að fullyrða á þessu stigi máls en er til viðræðu um það hvað fari best í stíl við hefðir og venjur þar um. Ég minni þó á að vegáætlun fer til faglegrar umfjöllunar í samgn. en kemur eftir sem áður líka til umfjöllunar í fjárln. Mér finnst ekki fjarri lagi að svipað geti gilt um meðferð tillögunnar í nefndum þingsins, þ.e. að báðar þessar nefndir geti fengið málið til umfjöllunar. Meginatriðið er hins vegar að þar fái það skjóta og skilvirka meðferð þannig að Alþingi geti tekið af skarið og lýst afdráttarlausu sjónarmiði sínu enn og aftur til þeirra mála sem hér um ræðir. Það hefði ekki átt að vera þörf á því en ótímabærar yfirlýsingar ábyrgðalausra fulltrúa framkvæmdarvaldsins, hæstv. ráðherra, hafa gert þessa tillögu nauðsynlega.