Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 16:09:48 (1045)

1995-11-17 16:09:48# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[16:09]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna orða Guðmundar Árna Stefánssonar tek ég fram að það sem ég sagði í ræðu minni í dag er í fullu samræmi við það sem ég sagði á mannvirkjaþingi. Að sjálfsögðu verður að standa við gerða samninga og það hefur m.a. komið fram í máli fjmrh. í umræðunni að annað stendur ekki til. En ég sagði að það er annars vegar um það að ræða að standa við samninga sem varða framkvæmdir sem er þegar lokið við eða standa yfir á grundvelli verksamninga og svo hins vegar er um að ræða samninga þar sem engar framkvæmdir hafa hafist. Ég tel að það sé í fyllsta máta eðlilegt af hálfu ríkisvaldsins að ganga til þess að endurskoða slíka samninga ef forsendur hafa breyst, ekki síst þegar það varðar framkvæmdir sem ríkið greiðir að mestöllu leyti eða greiðir að öllu leyti reksturinn. Í rauninni er ríkið aðallega að semja við sjálft sig. Þetta vildi ég að kæmi fram þannig að enginn misskilningur væri um það að til stæði að ég gerði tillögur í fjárln. eða við 2. umr. um það að allar fjárveitingar sem óskað er eftir á grundvelli samninga ættu eftir að koma fram.