Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 16:11:30 (1046)

1995-11-17 16:11:30# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[16:11]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Að gefnu þessu tilefni vil ég vekja athygli á því að hér er um að ræða 11 samninga. 9 af þessum 11 samningum eru þegar í gangi og undirritaður hefur verið verksamningur við verktaka þannig að um það þarf þá ekki að deila. Hinir samningarnir eru hjúkrunarheimilið á Fáskrúðsfirði og D-álma Sjúkrahúss Suðurnesja. Í gildandi fjárlögum eru 15 millj. til hjúkrunarheimilisins á Fáskrúðsfirði samkvæmt samþykkt Alþingis frá desember sl. þannig að það er ljóst að Alþingi hefur þegar tekið af skarið í þeim efnum enda þarf ég ekki að rifja það upp aftur og aftur sem ég gerði hér áðan að það var eftir talsverða umræðu sem ákvörðun var tekin um þann framgang máls.

Ég vil á sama hátt vekja á því athygli að í gildandi fjárlögum eru 20 millj. til margnefndrar D-álmu og það er raunar ekki í fyrsta skipti sem fjármagn hefur komið til þess verkefnis því að eins og ég gat um líka hefur þegar verið varið 20 millj. kr. á síðustu árum til hönnunarkostnaðar. Það er því orðið býsna grátt svæðið hvenær framkvæmdir eru hafnar og hvenær þær eru ekki hafnar.

Ég lít þannig á að þegar um er að ræða hönnunarkostnað upp á 20 millj., fjármögnun frá Alþingi fyrir ári upp á aðrar 20 millj., þá sé verkið komi í gang. Ég hlýt að túlka orð hv. þm. með þeim hætti að hann standi við alla þessa 11 samninga.