Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 16:31:50 (1054)

1995-11-17 16:31:50# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[16:31]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á áfengislögum sem ég flyt ásamt hv. þm. Geir H. Haarde, Siv Friðleifsdóttur og Lúðvíki Bergvinssyni.

Efni frv. er að breyta áfengislögum þannig að aldursmörk til kaupa og neyslu áfengis verði færð úr 20 ára aldri niður í 18 ára aldur. Ástæða þeirrar breytingar sem hér er lögð til er fyrst og fremst tvíþætt.

Í fyrsta lagi sýnir reynslan að þetta ákvæði áfengislaganna er í reynd ekki virt og sjálfsagt má segja að ekkert ákvæði laga sé jafnþverbrotið og þetta sem ég mun sýna nánar fram á í máli mínu.

Í öðru lagi eru ákvæði um 20 ára aldursmörk til neyslu og kaupa á áfengi langt frá því að vera í takt við þá þróun sem orðið hefur varðandi önnur réttindi unga fólksins á síðustu 25 árum. Ungt fólk hefur á undanförnum tveimur til þremur áratugum fengið með lögum mikil réttindi sem bæði fylgja mikil ábyrgð og skyldur og hefur við 18 ára aldur verið treyst fyrir auknum réttindum á ýmsum sviðum. Ég held að hvernig sem á málið er litið þá sýni reynslan okkur að það er engin vörn í umræddu ákvæði áfengislaganna og ekkert hald í þeim. Öll viljum við sporna gegn áfengisnotkun ungmenna en maður spyr hvort það sé leiðin að setja þetta aldurshámark í áfengislögin. Unglingar hafa þann aðgang að áfengi sem þau vilja og við höfum það fyrir okkur að t.d. á umliðnum árum hefur brugg- og landasala aukist verulega einkum hjá unglingum.

Meðalaldur unglinga þegar þeir byrja að neyta áfengis er samkvæmt könnunum 14 ára. Í nýlegri könnun sem landlæknisembættið lét gera kemur fram hjá framhaldsskólanemendum sem voru spurðir að 80% þeirra telja að þeir geti útvegað sér áfengi samdægurs ef þeir svo kjósa og um 90% þeirra sögðu já við þeirri spurningu hvort þeir hefðu drukkið áfengi.

Það má líka segja að þetta umrædda ákvæði komi í mörgum tilvikum í veg fyrir að unglingar á milli 18 og 20 ára geti sótt skemmtistaði eða kaffihús þar sem eru áfengisveitingar. Nú er dæmi til þess að sumir skemmtistaðir, veitingahús eða kaffihús setji sér aldursmörk alveg upp í 25 ára. Ég hygg að segja megi að það sé a.m.k. einn anginn af því miðbæjarvandamáli sem margir tala um.

Í könnun sem Reykjavíkurborg hefur gert kemur einmitt fram að vegna þessa að unga fólkið, 18--20 ára, kemst ekki inn á þessa staði þá hefur í vaxandi mæli komið til aukning á fölsuðum persónuskilríkjum. Nú mega 18 ára sækja kaffihús eða skemmtistaði en það eru eigendurnir sem hafa sett hærri aldursmörk.

Við höfum það því fyrir okkur sem er kjarnaatriði að boð og bönn hafa ekki dugað í þessu máli og við verðum að reyna aðrar leiðir. Lög sem ekki er farið eftir og mörgum finnst óréttlát og óskynsamleg og örðugt er að framfylgja eru ekki góð lög. Lög sem unga fólkinu finnst óskynsamleg og óréttlát geta orðið til þess að því finnst áfengi meira spennandi og það hafi meira aðdráttarafl. Ég hef haldið því fram að áfengisvandinn liggi ekki í því hvort ungt fólk á aldrinum 18--20 ára hafi lögformlega leyfi til að kaupa sér áfengi. Ég held að sá vandi sé af öðrum toga sem væri miklu nær að fara ofan í en að vera sífellt að vitna til einhverra unglingavandamála og ofnotkunar unga fólksins á áfengi. Það er líka eins og unga fólkið hefur sjálft sagt að það er náttúrlega óþolandi að allir á aldrinum 18--20 ára séu settir undir sama hatt með það að misnota áfengið eins og oft vill brenna við í umræðunni.

Víða erlendis eru þessi aldursmörk 18 ára og í greinargerð með frv. eru tilgreind nokkur lönd í þessu efni. Það er vissulega úr takt við þá þróun sem við hefur varðandi þau réttindi sem unga fólkið hefur öðlast á sl. áratugum að halda í þetta ákvæði sem reynslan sýnir að er ekki virt og eru úr takt við alla þróun þessara mála.

Ég held að í þeim löndum sem hafa treyst sínu unga fólki til að umgangast áfengið af skynsemi og miðað við 18 ára aldur sé ekki hægt að segja að ofnotkun unglinga á áfengi sé eitthvað meiri en hér á landi. Það rökstyður auðvitað það sem ég hef sagt að áfengisvandi sumra unglinga felist ekki í því hvort áfengisaldurinn er 18, 19 eða 20 ár. Ég held að það sé þversögn í því fólgin og tvískinnungur ef menn eru að skella skuldinni á einhver óskilgreind unglingavandamál og skýla sér á bak við úrelta löggjöf til varnar óhóflegri áfengisnotkun unga fólksins í stað þess að taka á þessu máli með öðrum hætti og reyna að kryfja til mergjar af hverju við erum að tala um unglingavandamál og ofnotkun sumra ungmenna á áfengi. Ég held einmitt að þessi breyting sem hér er lögð til feli í sér traust til unga fólksins á því að það geti umgengist áfengi af skynsemi og því sé sjálfu treyst fyrir því að gera sér grein fyrir þeirri hættu sem ofnotkun þess fylgir. Ég held einmitt að slík viðhorfsbreyting löggjafans til unga fólksins gæti þýtt breytt viðhorf þess til umgengni við áfengið.

Það vita allir að það hefur orðið veruleg breyting á löggjöfinni á sl. 20--25 árum að því er varðar réttindi ungs fólks á þessum árum. Það má nefna að lögræðislögunum var breytt 1979 og lögræðisaldur lækkaður úr 20 árum í 18 ár. Rökin fyrir því voru m.a. þau að óeðlilegt væri með öllu að kosningaaldur yrði lækkaður án þess að lögræðisaldur yrði lækkaður að sama skapi. Að auki var bent á eftirfarandi greinargerð með frv. um lækkun lögræðisaldurs frá 1979 sem ég vitna til, með leyfi forseta, en þar sagði:

,,Hitt er ótvírætt almenn skoðun á síðari árum og sérstaklega á síðustu áratugum að aukinni skólagöngu og menntun ásamt aukinni hagsæld hafi fylgt skjótari þroski æskulýðs þannig að eðlilegt sé að skjótari forráð eigin mála fylgi. Þetta hefur m.a. komið fram í því að fjölskyldustofnun verður á síðustu árum oft fyrr en almennt tíðkaðist til skamms tíma. Einnig hefur sjálfstæð tekjuöflun og eignaumsvif ungmenna aukist til muna. Er þess því að vænta að vart muni um það deilt að breytingar á þessu löggjafarsviði séu tímabærar. Með lögum frá 1972 var heimill aldur til hjúskaparstofnunar alfarið lækkaður í 18 ár. Þótt hjúskaparstofnun fylgi að lögum sjálfkrafa lögræði er sú ákvörðun aldursmarka enn ein staðfesting umræddrar þróunar.``

Ég held að það sé svolítið sérkennilegt að vera með þessa aldursviðmiðun við 20 ára. Sérstaklega í ljósi þess að það er engin vörn í slíku ákvæði þegar 18 ára fólk hefur það aðgengi að áfengi sem því hentar. Það ræður sjálft sínum persónulegu högum. Það hefur bæði sjálfræði og fjárræði, það getur tekið á sig alls konar fjárhagsskuldbindingar, tekið bankalán, orðið sjálfskuldarábyrgðarmenn vegna þriðja aðila, það getur verið handhafar greiðslukorta, því er treyst fyrir þeirri miklu ábyrgð sem fylgir giftingu og uppeldi barna, það hefur kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis og sveitarstjórna en er ekki treyst til að sjá fótum sínum forráð og bera ábyrgð á meðferð og neyslu áfengis eins og öðrum. Mér finnst það nokkuð sérkennilegt þegar við treystum unga fólkinu t.d. til að taka sæti á Alþingi og bera ábyrgð á ýmsum lagasetningum, líka lagasetningu sem snertir áfengismál og löggjöf um það efni en við treystum því ekki til þess að umgangast áfengið. Það sérkennilega í þessu er líka það að það hefur nú þegar leyfi til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslu um opnun á áfengisútsölu. Því er treyst fyrir því að leggja mat á það hvort rétt sé að setja niður áfengisútsölur hér og þar. Ef þessi tillaga hér hefði lotið að því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort lækka skyldi áfengisaldurinn og hefði verið samþykkt á þingi að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvað þjóðin vildi í þessu efni þá hefðu allir 18--20 ára unglingar átt rétt á að taka þátt í slíkri atkvæðagreiðslu og verið treyst fyrir því að leggja mat á það hvort það sé skynsamlegt að lækka áfengisaldurinn niður í 18 ár. Þannig að hvernig sem á málið er litið felst í þessu nokkur þversögn.

Við getum líka velt fyrir okkur öðrum aldursviðmiðunum. Við erum með áfengisaldurinn í 20 ár, sjálfræðisaldurinn erum við með alveg niður í 16 ár sem er einsdæmi borið saman við löndin hér í kringum okkur. Margir hafa rætt um að það þurfi að breyta þeirri aldursviðmiðun og færa hana upp í 18 ár. Síðan treystum við unga fólkinu til að taka ökupróf 17 ára sem er mikil ábyrgð í fólgin. Ég lét kanna það hjá Umferðarráði hvernig það væri í hinum ýmsu löndum varðandi ökuleyfisaldurinn. Þar voru 28 lönd tínd til. Í 24 þeirra eru aldursmörkin varðandi ökuleyfið 18 ára. Í fjórum löndum af þessum 28, þar á meðal Íslandi, er hann 17 ár. Það mætti því vel hugsa sér að vera með meiri samræmingu í þessu, færa t.d. sjálfræðisaldurinn upp í 18 ár eins og er í löndunum í kringum okkur. Það má vel vera að það sé mjög vafasamt þar sem við höfum þegar búið við það í nokkurn tíma að hafa ökuleyfisaldurinn 17 ár að það sé vafasamt að setja hann þá núna upp í 18 ára aldur. En þessi dæmi koma upp í hugann þegar þessi mál eru skoðuð í heild sinni. Við höfum það fyrir okkur að boð og bönn hafa ekki dugað í þessu efni. Áfengisvandinn liggur því í öðru en því hver áfengisaldurinn er.

Eftir að ég lagði þetta fram hef ég fengið álit fólks á þessum aldri. Ýmsir hafa hringt til mín eða skrifað mér bréf og sagt sitt álit á þessu efni. Ég finn að þetta fólk er mjög ósátt við að allir skuli settir undir sama hatt í þessum efnum og að allir á aldrinum 18--20 ára hafi þann stimpil að þeim sé ekki treyst fyrir því að umgangast áfengi. Þau hafa haldið því fram að landasala og kaup á bruggi muni minnka verulega ef unga fólkinu væri treyst til þess að kaupa áfengi yngra en 20 ára.

[16:45]

Ég er með greinargerð um miðbæjarvandann frá því í mars 1995 sem var gerð fyrir Reykjavíkurborg. Lýsingin þar á brugg- og landasölu til ungmenna er með ólíkindum og hafði ég ekki gert mér grein fyrir því fyrr en ég las það með hvaða hætti það er. Ég vitna til skýrslunnar sem er tekin saman fyrir borgaryfirvöld, með leyfi forseta:

,,Á undanförnum tveimur árum hefur bruggun og sala á landa færst mjög í vöxt. Þeir sem til þekkja eru á einu máli um að landasalan beinist mikið að unglingum. Framleiðslan hefur að miklu leyti færst út fyrir bæjarmörkin þar sem framleiðendur telja minni líkur á ströngu eftirliti. Lögreglan telur að bruggstöðvar séu fáar en afkastamiklar. Framleiðsla og dreifing virðist að mestu aðskilin. Lögreglan lýsir því svo að ,,séffarnir`` sjái eingöngu um söluna og minnki þannig eigin áhættu. Vinnudýr sjái hins vegar um framleiðsluna og taki skellina.

Í dreifingunni eru tengiliðirnir margir og hefur hver þeirra lítið magn undir höndum. Með þessu móti er áhættunni dreift og birgðahald í lágmarki. Byggt hefur verið upp öflugt dreifikerfi. Tengiliðir eru meðal nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum sem ýmist hafa frumkvæði að því að bjóða væntanlegum viðskiptavinum upp á að koma þeim í tengsl við söluaðila eða að tengiliðurinn er vel þekktur meðal skólafélaganna og þeir leita til hans. Viðskiptin fara gjarnan þannig fram að tengiliðurinn sendir boð inn á símboða sölumannsins sem síðan hefur samband um hæl, fær upplýsingar um magn og samið er um afhendingarstað. Í grunnskóla nokkrum í Reykjavík kváðu tíu slík símboðanúmer vera í gangi. Dreifikerfi landasalanna er orðið vel skipulagt. Minnir það um margt á dreifikerfi bandarískra fíkniefnasala sem reyna að höfða til unglinga með varning sinn. Lögreglan hefur bent á að dreifikerfi landasalanna bjóði upp á sölu á hverju sem er. Nú þegar eru ýmsir sölumenn landa með önnur vímuefni á boðstólum.``

Síðan kemur fram að ungmenni, 16 ára og eldri, bera uppi þessi viðskipti. Þar kemur líka fram í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Hitt er ljóst að unglingar á höfuðborgarsvæðinu eiga mun auðveldara með að nálgast áfengi en áður var og þeir sem neyta áfengis neyta mun meira magns en jafnaldrar þeirra gerðu fyrir örfáum árum. Landasala virðist eiga stærstan þátt í þessari þróun.``

Af hverju hefur ákvæðið um 20 ára aldursmörkin, sem margir vilja halda í, ekki virkað betur en þetta? Það voru margir, m.a. í þessum þingsal, sem spáðu því að þegar leyfð var sala á bjór að það myndi leiða til aukinnar áfengisneyslu og slysatíðni o.s.frv. Ég held að reynslan hafi ekki sýnt okkur það. Reynslan sýndi vöxt í einhvern tíma, fyrstu tvö eða þrjú árin, að því er varðar lítra eða magn en það var fyrst og fremst minni sala í sterkum drykkjum en meiri í bjór. Núna er neyslan svipuð og hún var 1989, nema hvað að hún er meiri í léttum vínum en minni í sterkum vínum.

Margir sögðu að áfengisnotkun unglinga myndi aukast eftir að bjórinn var leyfður. Því svarar landlæknisembættið með eftirfarandi hætti: ,,Er varðar fyrstu spurningu þar sem spurt er hvort ætla megi að tengsl séu á milli aukinnar slysatíðni meðal ungmenna og möguleika aukinnar áfengisneyslu ungmenna í ljósi nágrannaþjóða er því til að svara að fyrirspurn um þetta var send til viðkomandi landa.`` Ég vildi ganga úr skugga um það, og hafði reyndar gert það áður en þetta frv. var lagt fram, hvort ætla mætti að t.d. á Norðurlöndum hefði 18 ára aldursviðmiðun haft í för með sér aukna slysatíðni eins og haldið hefur verið fram en enginn kannaðist við það. En í ljósi þeirrar fréttatilkynningar sem t.d. áfengisvarnaráð hefur sent frá sér hef ég óskað eftir að landlæknisembættið kannaði það ítarlega, bæði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum.

Varðandi það hvort bjórinn hafi haft áhrif á áfengisneyslu ungmenna er því svarað að það sé rétt að geta þess að svo virðist sem litlar breytingar hafi orðið á áfengisneyslu ungmenna þetta tímabil, þ.e. tímabilið frá því að bjórinn var leyfður og til dagsins í dag ef marka má niðurstöður kannana landlæknisembættisins. Sú spá sem ýmsir settu fram, meðal annars áfengisvarnaráð og fleiri aðilar, þ.e. að þetta hefði í för með sér aukna drykkju unglinga, virðist því ekki hafa gengið eftir. (Gripið fram í.) Ég er að vitna í kannanir sem landlæknisembættið hefur gert í þessu efni og ég er að lesa orðrétt upp úr svari sem ég hef fengið frá landlæknisembættinu þar sem beint er spurt um þetta mál og þetta er svarið, hv. þm.

Þegar á allt þetta er litið finnst mér öll rök hníga að því að menn eigi að skoða það í þingsölum með jákvæðu hugarfari að breyta þessu ákvæði áfengislaganna. Ég fór ekki að velta þessu fyrir mér af alvöru fyrr en ég heyrði unglinga ræða tvískinnunginn í þessu máli í unglingaþætti á dögunum. Ég fór þá að velta fyrir mér öllum hliðum þessa máls og því betur sem ég fór ofan í málið fannst mér allt mæla með því að breyta þessu ákvæði. Ég held líka að samhliða þessu eigi að efla forvarnir í áfengismálum eins og getið er um í frv. Á vorþinginu varð samkomulag um að setja á ákveðinn forvarnasjóð og það var gert í tengslum við afnám á einkarétti áfengisverslunar. Á næsta ári verður 30 millj. meira til ráðstöfunar en var áður, voru 20 millj. og verða 50 millj. á næsta ári. Ég tel að enn þurfi að efla þann sjóð þó þetta sé vissulega góð byrjun. Ég held líka ef aldursviðmiðuninni væri breytt eins og hér er lagt til gætum við einbeitt okkur miklu betur að forvörnum yngri aldurshópana sem er full ástæða til. Ekki er nægilegt að leggja fram stefnumörkun í áfengismálum um að draga eigi svo og svo mikið úr áfengisneyslu heldur þarf að byggja upp markvissa og faglega baráttu gegn áfengisbölinu. Í því efni þarf að efla allar forvarnir og er það í undirbúningi að leggja fram tillögu þar að lútandi á hv. Alþingi.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa fleiri orð um þetta mál nema tilefni gefist til og legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. allshn.