Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 17:12:28 (1062)

1995-11-17 17:12:28# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[17:12]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Áfengislöggjöfin er viðkvæm og vandmeðfarin og því er það mál sem hér er til umræðu mjög mikilvægt. Það er ekki síður mikilvægt og vandmeðfarið, að mínu mati, vegna þess að það fjallar um áfengi og ungt fólk, en af einhverjum ástæðum eiga íslensk ungmenni í meiri vandræðum með að meðhöndla þetta vímuefni en ungmenni í flestum nágrannalöndum okkar. Á því eru þó undantekningar, samanber t.d. Grænland.

Þetta mál er væntanlega ekki flokkspólitískt en þar sem engin kvennalistakona stendur að flutningi þess vil ég að það komi fram að sú sem hér stendur, og reyndar allur þingflokkur Kvennalistans í heild, er mjög jákvæður gagnvart þeirri breytingu sem hér er lögð til. Meginástæðan er sú að ég sé engin rök fyrir því að einstaklingar fái lögræði við 18 ára aldur, fái kosningarrétt, fái að eignast börn og ala þau upp, fái með öðrum orðum öll borgaraleg réttindi við 18 ára aldur nema það eitt að kaupa áfengi. Mér finnst það mjög mikið vantraust á ungt fólk að því sé ekki heimilað að kaupa áfengi við 18 ára aldur fyrst við veitum því öll hin borgaralegu réttindin. Þess vegna er ég hlynnt því að við treystum unga fólkinu til að taka þessar ákvarðanir líka við 18 ára aldur. Og samanburður við önnur lönd sýnir að langvíðast er miðað við 18 ár. Ég er því sannfærð um að það er ekki spurning um hvort þetta breytist, heldur hvenær.

Á hinn bóginn bendir margt til að núverandi löggjöf, sem heimilar áfengiskaup við 20 ára aldur, sé alls ekki virt og þetta valdi ýmsum erfiðleikum í framkvæmd þar sem vínveitingahús eru opin fyrir 18 ára og eldri. Ég tel mjög alvarlegt að ungt fólk fái þá mynd að lög séu ekki virt, slíkt er alvarlegt mál frá uppeldisfræðilegu sjónarmiði. Því tel ég mun eðlilegra að heimild til að kaupa áfengi sé bundin við 18 ára aldur og tel líklegt að það muni auðvelda að þessum lögum sé framfylgt hvort sem er í Áfengisverslun ríkisins, á skemmtistöðum eða t.d. í sambandi við skemmtanahald í framhaldsskólum.

[17:15]

Ég tel einnig að líkur á bruggun landa eða ólöglegs áfengis minnki við þessa breytingu þó líklega sé ekki beint orsakasamband þarna á milli. Ég mun því að öllum líkindum styðja þetta frv. nema eitthvað komi fram við meðferð þess sem fær mig til að breyta skoðun minni. Þó vil ég nefna að ég hefði sjálf kosið að við hefðum byrjað á því að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár og síðan hefðum við gert þessa breytingu eða að við gerðum þetta tvennt í einu. Ég tel að aldurshópurinn 16--18 ára sé áhyggjuefni í þjóðfélaginu og réttarstaða þeirra óskýr. Sívaxandi skólaganga ungs fólks, lág laun og atvinnuleysi benda til mjög veikrar réttarstöðu. Í raun og veru geta foreldrar þeirra hent þeim út á götuna. Ég tel mjög brýnt að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár jafnframt því að lækka áfengisaldurinn í 18 ár. Ég er tilbúin til að beita mér fyrir báðum þessum málum. Þessar breytingar til samans ættu að skýra réttarstöðu unglinga til muna og auka líkurnar á því að fólk fari eftir lögum og að okkar unga fólk alist upp við það að lög séu lög og eftir þeim eigi að fara.