Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 18:20:04 (1076)

1995-11-17 18:20:04# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[18:20]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Eins og við var að búast eru skiptar skoðanir um þetta mál hér í þingsölum eins og oft vill verða þegar verið er að fjalla um breytingar á áfengislöggjöfinni. Þessi umræða minnti mig um margt á þá umræðu sem fór fram þegar verið var að ræða frv. um að leyfa sölu á bjór á sínum tíma. Þetta er, eins og komið hefur fram, ekki flokkspólitískt mál og sjálfsagt skiptar skoðanir um það mál í öllum flokkum. Ég hygg að engin rök bíti á þá sem eru á móti þessu máli. Þeir eru í hjarta sínu sannfærðir um að þetta sé ekki leiðin. Ég hygg að það sama gildi um okkur sem höfum verið að færa rök fyrir okkar máli um að rétt sé að lækka þennan aldur. En mér finnst að ýmislegt í málflutningi hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar megi kannski flokka undir dylgjur. Það var t.d. rætt um það af öðru tilefni hér áðan að við, sem mælum með þessari leið, teljum að henni fylgi engin vandamál varðandi áfengisnotkun í þessum aldurshópi og að það þýði að við séum sátt við ástandið. Auðvitað er það ekki svo. Þingmaður veit betur. Við teljum bara að sú leið sem verið hefur, að hafa aldursmörkin 20 ára, hafi engu skilað. Þegar talað er um aðgengi þessa hóps að áfengi vita þingmenn, og það hefur margoft komið fram, að þessi aldurshópur, 18--20 ára og jafnvel yngri, hefur þann aðgang að áfengi sem hann vill. Það sem verra er, hann hefur greiðan aðgang að bruggi eða landa, eins og fram hefur komið í úttekt sem var gerð. Þar er talað er um skipulagða dreifingu á landa, sem er þó hættulegri heldur en öl eða áfengi. Ekki hafa þessi aldursmörk, sem við erum hér að deila um, komið í veg fyrir landasölu eða að unga fólkið neyti áfengis.

Nei, hv. þm., ég held að við verðum að finna aðrar leiðir í þessu efni. Ég teld t.d. að við höfum varið of litlu fjármagni til forvarna, fræðslu og annars slíks í áfengismálum. Ég hef sagt það, og segi það aftur, að ég tel að við gætum beitt okkur betur að þeim hópi, yngri en 18 ára, sem flestir hér hafa áhyggjur af ef við hefðum löggjöf í áfengismálum sem tæki meira mið af raunveruleikanum en hún gerir nú. Ég hygg að um eitt getum við öll verið sammála, þótt við deilum um aldursmörk. Okkur ber að móta áfengisstefnu þar sem markvisst verður unnið að því að fólk umgangist áfengi með öðru hugarfari og sé sjálft vel meðvitað um hættur samfara áfengisneyslu. Hún á að vera með þeim hætti að fólk breyti viðhorfi sínu til þessa máls og eigi að geta umgengist áfengið hóflegar en kannski sumir gera.

Mín skoðun er sú að í þessu efni hafi boð og bönn ekki dugað. Það er alveg rétt, eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, að árið 1969 töldu þingmenn ástæðu til að lækka áfengisaldurinn úr 21 árs í 20 ár í samræmi við önnur réttindi sem þá var verið að veita þessum aldurshópi. Á þessu tímabili, eða frá 1969, hefur ýmislegt breyst í þjóðfélaginu. Við höfum m.a. lækkað aldursmörk varðandi lögræði, sjálfræði o.fl. og treyst unga fólkinu til að umgangast þau réttindi sem við höfum veitt því af þeirri ábyrgð sem vera ber. Í grg. með frv. 1979 varðandi breytingu á lögræðisaldri var meira að segja talað um að aðrar breytingar mundu fylgja í kjölfarið, þar sem lagaákvæðum um aldursskilyrði yrði breytt, t.d. hjúskaparlögum og ættleiðingarlögum. Menn voru líka að tala um að láta ættleiðingarlögin fylgja þar til samræmis. Eins og ég benti á áðan höfum við treyst unga fólkinu til að fá ökuréttindi 17 ára sem flest lönd gera ekki, og miða þar við 18 ára aldur. Fátt getur verið ábyrgðarmeira en að veita ungu fólki rétt til að aka bifreið.

Þannig að allt lýsir þetta nokkrum tvískinnungi. Hv. 4. þm. Suðurl. spurði hvort þetta ákvæði þýddi að unga fólkið hætti að falsa skilríki. Já, ég held að það geri það. Vegna þess að unga fólkið hefur núna leyfi til að fara inn á vínveitingastaði 18 ára gamalt, en ekki til að kaupa áfengi. Staðirnir sjálfir setja sér þau aldursmörk að hleypa þeim ekki inn fyrr en við 20 ára aldur, og sum jafnvel ekki fyrr en við 25 ára aldur, vegna áfengislöggjafarinnar. Ef þessu yrði breytt samhliða þá hygg ég að úr því mundi draga. En það er hvorki hægt að fullyrða að landasala muni hverfa né heldur að áfengisaldurinn muni færast neðar, eins og andstæðingar þessa frv. gera. Ég tel þó að það hljóti að draga verulega úr landasölu við þessa breytingu. Ég hygg líka, þótt það muni að vísu heldur ekki leysa vandann varðandi miðbæjarvandamálið sem slíkt, að þá sé einn angi þess sá tvískinnungur að unga fólkið, 18--20 ára, á ekki greiðan aðgang inn á venjuleg kaffihús, hafi þau áfengisleyfi, þótt það ætli sér kannski bara að fá sér gos eða kaffi. Því er ekki hleypt þar inn vegna þessa ákvæðis í áfengislögunum. Þessi aldurshópur á því kannski ekki í mörg hús að venda þegar það vill hitta jafnaldra sína, ef veitingastaðir og kaffihús í miðbænum eru þeim lokuð.

Ég tel ekki ástæða til að fjölyrða frekar um þetta. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði að við neituðum að taka mark á staðreyndum. Það er auðvitað fullyrðing sem ekki stenst. Við, sem flytjum þetta frv., höfum skoðað málið vandlega og munum væntanlega fá fleiri upplýsingar varðandi reynslu þjóða sem treyst hafa sínu unga fólki til að meðhöndla áfengi við 18 ára aldur, t.d. bæði hvað varðar neyslu og slysatíðni. Mér finnst sjálfsagt að fá slíkar upplýsingar frá þjóðum sem hafa reynslu af mörkum við 18 ára aldur. Ekki bara frá Bandaríkjunum, heldur líka frá nálægari löndum. Mörg hafa meira að segja, hv. þm., farið neðar og ég ekki að mæla með því. Sum miða við 16 ára aldur og í Danmörku er áfengi t.d. selt í búðum og þar er ég ósammála síðasta ræðumanni. Ég er á móti því.

Að lokum vil ég segja að að það liggur ljóst fyrir að ungmenni eiga þó nokkuð greiðan aðgang að áfengi, þrátt fyrir aldurstakmörkin. Þau hafa ekki dugað. Hv. þingmenn, sem hafa talað gegn þessu frv., hafa þó ekki mótmælt því. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að ef þeir væru samkvæmir sjálfum sér, ættu þeir að leggja til hækkun á þessum aldri, kannski upp í 22 eða 25 ára, og flytja það sem breytingartillögu við þetta frv.