Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 18:32:37 (1078)

1995-11-17 18:32:37# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[18:32]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því verður varla trúað að það standist sem hv. þm. segir að hér verði allt yfirfullt af bílum í kvöld sem verði fullir af landa til þess að selja ungmennum. Við erum þó með áfengislöggjöf sem bannar að selja fólki undir tvítugu áfengi. Mér finnst þetta einmitt styðja það sem við erum að tala um að áfengislöggjöfin hefur alls ekki dugað. Hvað viljum við gera annað en boð og bönn? Við viljum t.d. láta á það reyna hvort sú viðhorfsbreyting löggjafans til unga fólksins ef þetta frv. yrði samþykkt gæti ekki haft þau áhrif ef löggjafinn ber traust til unga fólksins að umgangast áfengi að það fari ekki að umgangast það þá með öðrum hætti en það hefur gert. Það er ein leiðin. Síðan hef ég sagt að áfengisvandamálið sé ekki fólgið í 18, 19 eða 20 ára aldri, hvort við leyfum því unga fólki að kaupa sér áfengi löglega, heldur er það hið þjóðfélagslega umhverfi sem við höfum búið unga fólkinu og það er sá þáttur sem ég vil gjarnan kryfja til mergjar með hv. þm. og virðulegum presti. Síðan hef ég líka nefnt það að ég tel að það eigi að fara skipulega í að móta virka áfengisstefnu og efla forvarnir. Þetta eru allt leiðir sem eru miklu raunhæfari en boð og bönn í þessu efni sem hafa ekki virkað eins og við sjáum alls staðar fyrir okkur.