Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:08:33 (1087)

1995-11-20 15:08:33# 120. lþ. 35.1 fundur 81#B Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur


[15:08]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn en ég vil taka fram af minni hálfu að ég tel að við eigum að taka virkan þátt að öllu leyti í starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Við höfum lýst því yfir að við viljum gjarnan taka þátt í því að breyta uppbyggingu öryggisráðsins og huga að nýrri skiptingu þeirra þjóða sem fara með neitunarvald og eins fjölgun þátttökuþjóða þar.

Ég lýsi því sem skoðun minni að ég tel ástæðulaust fyrir okkur að færast undan því lengur að axla þá ábyrgð sem fylgir þátttöku í öryggisráðinu. Ég tel að bæði hafi tæknihlutinn breyst svo mikið að þar sem áður var rætt um að þyrfti að hafa fjölmennar sendinefndir á staðnum til þess að geta uppfyllt slík skilyrði hafi tæknin breytt slíkum hlutum. Ég tel að við eigum að axla þarna ábyrgð á þessum þætti eins og annars staðar. Eins og hv. þm. nefndi hafa þjóðir sem við höfum verið að styðja fjárhagslega vegna þess hversu fátækar þær eru og illa í stakk búnar tekið þátt í slíku samstarfi eins og Grænhöfðaeyjar og reyndar aðrar þjóðir sem hafa ekki haft mjög mikla fjárhagslega burði. En ég er þeirrar skoðunar að þetta gæti verið og sé eðlilegur þáttur í störfum okkar hjá hinum Sameinuðu þjóðum.