Móttöku- og hlustunarskilyrði útvarps og sjónvarps í Grundarfirði

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:11:28 (1089)

1995-11-20 15:11:28# 120. lþ. 35.1 fundur 82#B móttöku- og hlustunarskilyrði útvarps og sjónvarps í Grundarfirði# (óundirbúin fsp.), MS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur


[15:11]

Magnús Stefánsson:

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntmrh. varðandi móttöku- og hlustunarskilyrði Ríkisútvarps og sjónvarps í Grundarfirði. Þar sem móttöku- og hlustunarskilyrði útvarps og sjónvarps í Grundarfirði eru oft mjög slæm og þegar veðurskilyrði eru slæm vill oft bregða svo að hvorki heyrist í Ríkisútvarpinu né sjónvarpinu. Þarna er um að ræða bæði öryggismál fyrir íbúa á staðnum fyrir utan það að þarna er um sjálfsagða þjónustu að ræða.

Heimamenn og sveitarstjórn Eyrarsveitar hafa ítrekað óskað eftir úrbótum í þessum málum og ég spyr hæstv. menntmrh. hvort áform séu um úrbætur í þessum efnum og hvenær vænta megi þeirra úrbóta.