Síldarsamningar við Noreg

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:39:45 (1101)

1995-11-20 15:39:45# 120. lþ. 36.91 fundur 91#B síldarsamningar við Noreg# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[15:39]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hv. 15. þm. Reykv. er svona hvumpinn yfir gagnrýni á fyrri ríkisstjórn varðandi meðferð síldarsamninga við Norðmenn og aðrar þjóðir, vegna þess að það fóru engar samningaviðræður fram um síldina í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þær voru fyrst teknar upp í sumar og það er þess vegna fullkomlega ástæðulaust fyrir hv. þm. að kvarta yfir gagnrýni á fyrri ríkisstjórn sem ekki hafði tekið upp samninga í þessum efnum.

Svo þessi ferill sé rifjaður upp, þá liggur fyrir að við höfum um allmörg ár reynt að knýja á um það að Norðmenn kæmu til viðræðna um skiptingu á síldarstofninum. En það var fyrst á liðnu sumri sem það bar árangur og þeir féllust á að taka upp viðræður. Upp úr þeim slitnuði. Hvað skiptingu veiðiheimilda varðar snerust þær í fyrsta lagi um bráðabirgðaúrlausn sem ætti að standa þar til fullnaðarsamningur hefði verið gerður. Hvað undirbúning að samningum um varanlega samningsgerð varðar, var ákveðið að setja á fót nefnd vísindamanna til þess að gera grein fyrir sögulegri veiði og sögulegri dreifingu stofnsins. Skýrsla þeirra var lögð fyrir fund sem strandþjóðirnar héldu í Moskvu í lok októbermánaðar. Eins og kunnugt er kemur fram í skýrslunni að síldarstofninn, miðað við þetta klassíska eða hefðbundna tímabil síldveiða fram til 1962, var um 26 eða 27% innan okkar marka ef miðað er við alla síldina, en um 40% eða rétt rúmlega það ef einungis er tekið tillit til fullorðinnar síldar.

Á fundinum í Moskvu urðu menn sammála um að styðjast við plagg vísindamannanna í áframhaldandi viðræðum. Það er hins vegar uppi verulegur ágreiningur um það hvaða viðmiðanir á að nota í þeim efnum. Á fundinum í Moskvu kom einnig fram að það er nokkur ágreiningur um það hvernig standa skuli að stjórnuninni. Við höfum lagt á það áherslu að strandþjóðirnar ættu að taka í sem allra ríkustum mæli ákvarðanir um skiptingu úr stofninum. Norðmenn hafa á hinn bóginn talið rétt að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin taki ákvörðun um skiptingu á þeim hluta sem tilheyrir alþjóðlega hafsvæðinu. Þeir hafa lagt til, og lögðu til á fundinum í síðustu viku, að úthlutað yrði 3--4% af stofninum til alþjóðlega hafsvæðisins og NEAF tæki ákvarðanir um skiptingu á því. Við snerumst eindregið gegn þeirri tillögu og hún var ekki afgreidd á fundinum. Að því leyti áttum við samleið með Evrópusambandinu að það gat heldur ekki fallist á hana. Það hefur hins vegar sett fram þá kröfu að NEAF taki að sér stjórn á öllum stofninum og við eigum vissulega ekki samleið með Evrópusambandinu að þessu leyti.

Í næsta mánuði, eða um miðjan desember, er áformaður fundur strandveiðiþjóðanna sem haldinn verður í Þórshöfn í Færeyjum. Í beinu framhaldi af honum verður fundur með Evrópusambandinu þar sem reynt verður að þoka málinu áfram. Síðan verður vinnunefndarfundur innan NEAF í byrjun janúar um hlutverk NEAF. Á þessu stigi er auðvitað erfitt að segja fyrir um hverjar líkur eru á árangri í þessu efni. En þvergirðingsleg afstaða Norðmanna upp á síðkastið og mjög neikvæð yfirlýsing aðstoðarsjávarútvegsráðherra Rússlands benda til þess að hér verði um mjög erfiða samninga að ræða og benda kannski til þess að Norðmenn meini ekki mikið með því að koma til slíkra viðræðna. Ég get auðvitað ekki fullyrt að þeir meini ekki neitt með þessu, en það sem þeir hafa sagt fram að þessu bendir til að það standi lítið á bak við orð þeirra í þeim efnum.

Við vitum hins vegar af langri reynslu að besta leiðin til þess að ná skynsamlegri stjórn á stofninum er sú að strandþjóðirnar komi að þessu verki og við sleppum Norðmönnum ekki við það að koma til viðræðna við okkur og aðrar strandþjóðir. Ef þær viðræður bera engan tilætlaðan árangur og Norðmenn halda áfram að sýna þá óbilgirni sem þeir hafa verið að gefa til kynna að þeir ætli að gera, þá verðum við auðvitað að meta okkar stöðu. Ég hef rætt það við sjávarútvegsráðherra Færeyja, herra forseti, að fari svo þá kunni til þess að koma að við þurfum að setjast sameiginlega að samningaborði aftur og taka sameiginlegar ákvarðanir um kvótaskiptingu.