Síldarsamningar við Noreg

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:53:30 (1105)

1995-11-20 15:53:30# 120. lþ. 36.91 fundur 91#B síldarsamningar við Noreg# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[15:53]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Sú umræða sem hér er á ferðinni er ákaflega þörf. Við Íslendingar verðum að gera okkur ljósa þá stöðu sem við erum í gagnvart Norðmönnum um aðgang að síldarstofninum sem við eigum allan rétt á að nýta innan skynsamlegra marka. Mín skoðun er sú að við eigum að gera kröfu um 35% af veiði úr sameiginlega norsk/íslenska stofninum í okkar hlut.

Síldveiðarnar eru gífurlegt atvinnuspursmál fyrir Ísland. Stjórnun veiðanna skiptir miklu. Magnið sem tekið er úr stofninum getur sennilega haft meiri áhrif á þjóðarhag Íslendinga en nokkurrar annarrar þjóðar nema ef vera skyldi Færeyinga. Ég minni á að þegar nýting síldar var í hámarki á bestu veiðiárunum, þá skiluðu veiðarnar þriðjungi af gjaldeyristekjum okkar.

Varðandi veiðar nú á síld við Ísland vil ég nota tækifærið til að nefna að ég tel að veiðar til manneldis eigi að vera frjálsar og að þeim aðilum sem geta sýnt fram á sölusamninga á viðunandi verði verði heimilað að veiða undir eftirliti sjútvrn.

Herra forseti. Samskipti okkar við Norðmenn varðandi nýtingu og aðgang að sameiginlegum fiskimiðum utan lögsögu eru komin á það plan að ég efast um að unnt sé að réttlæta áframhaldandi viðræður við þá vegna yfirgangs þeirra og takmarkalausrar frekju og óbilgirni sem þeir hafa sýnt okkur.

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. ráðherra: Mun hæstv. sjútvrh. taka upp viðræður við Færeyinga og e.t.v. Evrópusambandið um að gefa út ásamt þeim ákvarðanir um veiðar úr norsk/íslenska síldarstofninum? Á hvern hátt ætlar hæstv. ráðherra að svara óskiljanlegum dónaskap og ögrun Norðmanna? Er hæstv. ráðherra e.t.v. kominn á þá skoðun að vitrænna sé að semja við Evrópusambandið en þá aðila sem hann hefur helst litið á sem fyrirmynd í þeim málum, þ.e. varðandi ESB-aðild, nefnilega Norðmenn?