Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:37:46 (1116)

1995-11-20 16:37:46# 120. lþ. 36.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:37]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hefur skýrt ágætlega sjónarmið sitt í þessu efni og ég þakka honum fyrir þessa skýringu. Þetta var ákaflega fróðleg ræða því að þetta var svona gamaldags forræðishyggjuræða. Þingmaðurinn sagði: Menn hafa ákveðið ... mönnum finnst þetta ekki vera svona. Hvaða mönnum? Jú, einhverjum mönnum sem búa annars staðar en í viðkomandi sveitarfélagi. Ef þeir menn sem búa einhvers staðar annars staðar en í viðkomandi sveitarfélagi eða litlum sveitarfélögum eru á þeirri skoðun að þau séu vanmáttug til ýmissa hluta og beri þess vegna að sameinast öðrum þá verða þeir að leggja það á sig að mínu viti að sannfæra íbúana um það. Annað er forræðishyggja ef einhverjir menn annars staðar ákveða svona stóra hluti fyrir íbúana sjálfa. Það er mín skoðun í málinu og er út af fyrir sig ekkert meira um það að segja. Skoðanir eru skýrar hjá okkur tveimur í þessu efni og ólíkar.

Ég þakka að lokum hv. þm. fyrir skýrt svar í þessum efnum.