Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:39:20 (1117)

1995-11-20 16:39:20# 120. lþ. 36.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:39]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um forræðishyggju í þessum málum og það hvað menn ákveða. Þeir sem sitja á hv. Alþingi eru hingað kjörnir til að taka ákvarðanir. Meðal þeirra ákvarðana sem hér eru teknar eru ákvarðanir sem varða alla íbúa landsins í öllum sveitarfélögum landsins og við vorum einmitt að gera athugasemdir við það áðan að ákvarðanir sem stendur til að taka eru ákvarðanir sem ekki varða alla íbúa landsins heldur einungis nokkurn hluta þeirra.

Það er ekki forræðishyggja að setja lög á Alþingi sem varða íbúana og löggjafinn verður að hafa það í huga þegar hann er að setja lög að gera íbúunum jafnhátt undir höfði en setja ekki þannig lög að þeim sé vissulega mismunað þó að tilgangurinn sé annar. Það hygg ég að hafi gerst með sveitarstjórnarlögin frá 1986 að það fyrirkomulag sem komst á vegna þess að þingheimur hafði ekki kjark til á þeim tíma eða nægilegan vilja, frekar en áður þegar reynt hafði verið að leggja fram á hinu háa Alþingi breytingar á sveitarstjórnarlögum til stækkunar sveitarfélaga, til þess að taka á þeim málum jafnframt. Það var ekki svo. Þess vegna getur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kallað það forræðishyggju, ef hann vill, ef menn hafa af þessu áhyggjur. En ég tel það skyldu mína að hafa áhyggjur af því að þau lög sem við störfum eftir í dag eru engan veginn nógu góð vegna þess að það var einungis önnur stoðin reist en hin aldrei nema til hálfs.