Vörugjald af olíu

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 17:02:12 (1122)

1995-11-20 17:02:12# 120. lþ. 36.7 fundur 111. mál: #A vörugjald af olíu# (frestun gildistöku) frv., Frsm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[17:02]

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breyting á lögum um vörugjald af olíu. Frv. fjallar um að fresta framkvæmd laga um vörugjald af olíu um tvö ár meðan unnið er að útfærslu hagkvæmra litunarleiða í stað endurgreiðsluleiða.

Frv. fékk þá meðferð í hv. efh.- og viðskn. að fengnir voru á fund nefndarinnar ýmsir hagsmunaaðilar frá olíufélögunum, frá Samtökum landflutningamanna, frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, frá Samtökum iðnaðarins og frá Landvara, félagi vörubifreiðaeigenda. Það var álit allra þessara aðila að styðja frv., þ.e. að fresta framkvæmd á vörugjaldinu með þessum hætti eins og gert var ráð fyrir á sínum tíma þegar frv. var afgreitt.

Í nefndarálitinu kemur fram að í framhaldi af fundi nefndarinnar um málið barst henni bréf frá fjmrn. þar sem fram kemur að verði frv. samþykkt eins og nefndin leggur til þá hyggst fjmrh. skipa nefnd eða nefndir embættismanna og hagsmunaaðila til áframhaldandi undirbúnings og samráðs um upptöku olíugjalds. Það á að kanna nánar forsendur sem liggja til grundvallar olíugjalds og framkvæma ítarlega athugun á því hvernig unnt sé með hagkvæmum hætti að koma við litun gjaldfrjálsrar olíu til eftirlits. Jafnframt segir í þessu bréfi að hafinn sé af hálfu ráðuneytisins, í samráði við Vegagerðina, undirbúningur að endurskoðun á lögum um fjáröflun til vegagerðar til styrkingar á framkvæmd þungaskatts, samanber tillögur samráðsnefndar um olíugjald. Upprunalega hugmyndin um frestunina kom fram frá samráðsnefnd um þennan málaflokk þannig að þessi frestun, þ.e. þetta frv., nýtur stuðnings aðila í greininni samkvæmt þeim umsögnum sem nefndin fékk til sín.

Allir nefndarmenn standa að nefndarálitinu en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins.