Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 17:42:48 (1127)

1995-11-20 17:42:48# 120. lþ. 37.3 fundur 146. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þingseta ráðherra) frv., VK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur


[17:42]

Viktor B. Kjartansson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að umræða um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sé komin til umræðu á hinu háa Alþingi. Ég held að það sé orðið löngu tímabært að sú umræða fari fram og tel mjög nauðsynlegt að einhver skref verði stigin í þá átt að aðskilja löggjafarvald og framkvæmdarvald.

Hv. 12. þm. Reykn., Kristín Halldórsdóttir, óskaði eftir afstöðu stjórnarflokkanna. Ég get því miður ekki lýst henni, ég get einungis lýst minni afstöðu og tel að í þessu frv. sé komin fram hugmynd sem gæti vissulega verið skref í rétta átt þó að ég telji að það væri jafnvel ástæða til þess að stíga enn lengra, sem ég vil útskýra á eftir.

En af hverju á að aðskilja löggjafarvald og framkvæmdarvald? Ég held að að það sé nokkuð augljóst. Þeir sem sitja á hinu háa Alþingi eru að samþykkja lög og sömu aðilar sem á Alþingi sitja og gegna ráðherradómi þurfa síðan að framfylgja sömu lögum og þeir hafa samþykkt. Þetta kemur mjög bersýnilega fram t.d. í fjárlagaumræðu þar sem verið er að samþykkja fjárveitingar til einstakra ráðuneyta og sömu aðilar og samþykkja þessar fjárveitingar lenda síðan í því að fylgja eftir framkvæmdinni og eyða því sama fé. Þetta held ég að menn sjái að getur haft alls kyns vandkvæði í för með sér og bjóði upp á hættur sem ég tel að sé ástæða til að forðast.

Í þessu frv. er einnig rætt um fækkun þingmanna og ég tek heils hugar undir það að ástæða sé til að fækka þingmönnum, þó ekki í sama hlutfalli og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði að umtalsefni áðan, í hlutfalli við Norðurlöndin t.d. Ég held að ákveðinn lágmarksfjöldi þurfi að vera til staðar til þess að þingið geti starfað. En samt sem áður held ég að um leið og við fækkum þingmönnum sé ástæða til þess að nota tækifærið og jafna atkvæðisréttinn. Þetta held ég að séu tvö atriði sem verði að haldast í hendur og er undirrótin að mörgum þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, fækkun þingmanna og jöfnun atkvæðisréttar, allt eru þetta atriði sem verða að haldast í hendur.

[17:45]

Sú tillaga sem hv. flm. ber fram varðandi þá framkvæmd sem lýst er í frv. hefur, að mínu mati, ákveðin vandkvæði í för með sér. Þegar ráðherra hefur verið kjörinn á þing og þarf síðan að kalla inn varamann, getur það haft mjög óþægilegar afleiðingar í för með sér. Varaþingmaður er t.d. kallaður inn og gerir ráðstafanir til þess að sitja á þingi, hugsanlega í tvö ár eða fjögur ár. Síðan verða breytingar á stjórninni, flokkurinn ákveður að skipta um ráðherra eða gera einhverjar breytingar á sínu ráðherraliði. Þá dettur viðkomandi varamaður út og ráðherrann tekur aftur sæti á Alþingi. Ég held að menn lendi í ákveðnum vandræðum og vafa með það hver staða þeirra verður, þeir vita í rauninni ekki hversu lengi þeir munu sitja.

Þetta er einnig spurning um setu á þingflokksfundum. Eiga ráðherrar að sitja á þingflokksfundum, eiga þeir að hafa þar atkvæðisrétt eða eingöngu málfrelsi og tillögurétt? Eiga ráðherrar að fara með sínum þingmannahópi í ferðir um kjördæmin? En það tíðkast nú mjög að þingmenn heimsækja sín kjördæmi. Eiga þeir að vera í þeim hópi eða sitja á skrifstofum sínum í Reykjavík á meðan aðrir þingmenn fara á meðal kjósenda? Það eru alls kyns svona atriði sem gætu orðið til vandræða og þess vegna tel ég ástæðu til þess að stíga skrefið enn lengra og kjósa framkvæmdarvaldið sérstaklega. Þar er um tvær leiðir að ræða. Annars vegar eins og gert er t.d. í Frakklandi, þar er forsrh. kosinn sérstaklega og hann velur ráðherra í ríkisstjórn sína. Síðan eiga sér stað samningar á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Eða eins og gert er í Bandaríkjunum, þar sem forseti er kosinn sérstaklega. Þar sem forsetakosningar standa fyrir dyrum á Íslandi finnst mér ekki óeðlilegt að rætt verði um hvort ástæða sé til þess að breyta vægi forsetaembættisins, auka vægi forsetans og gera hann að lykilmanni í stjórnkerfi landsins. Mér finnst full ástæða til þess að skoða það og tel að með því að hafa þann háttinn á að kjósa framkvæmdarvaldið sérstaklega og löggjafarvaldið sérstaklega séu skilin algerlega skýr og þá fari fram öðruvísi samningar heldur en eiga sér stað á hinu háa Alþingi í dag.