Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 17:57:54 (1129)

1995-11-20 17:57:54# 120. lþ. 37.3 fundur 146. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þingseta ráðherra) frv., ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur


[17:57]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Það er kannski ekki ástæða til þess að lengja þennan vinnudag miklu meira og e.t.v. ekki mikil ástæða til þess fyrir varaþingmann sem situr kannski inni skamma stund að flytja langa tölu um þetta mál. Ekki get ég lýst yfir neinni afstöðu þingflokks Sjálfstfl., þar sem þetta mál hefur ekki verið tekið þar fyrir. En ég held að það sé full ástæða til þess að taka undir með þeim sem hafa talað hér á undan með því að fagna framkomu þessa frv. og þakka flm. fyrir að hafa komið því í verk að flytja þetta inn á þing. Þótt það sé gamall ættingi hv. þm. Ágústs Einarssonar, þá er þetta mál sem hefur verið mikið í umræðunni á undanförnum árum, en hefur hins vegar ekki borist mikið inn á þingið.

Ég vildi aðeins lýsa því fyrir mína parta að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við þyrftum að gera álíka breytingar og Norðmenn gerðu, ekki veit ég hvað það er langt síðan, á sinni stjórnarskrá þar sem þeir leystu ráðherrana undan þingstörfum, m.a. einmitt til þess að skerpa skilin á milli þings og framkvæmdarvalds. Það er rétt sem ræðumenn hafa sagt á undan að okkar stjórnskipulag hefur verið of mikil blanda af framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu og þingmenn hafa sóst eftir að komast inn í framkvæmdarvaldið með einhverjum hætti, ýmist sem ráðherrar eða í ýmiss konar nefndir yfir framkvæmdarvaldsstofnunum. Það hlýtur að vera stjórnarfari okkar hollara að þingið sé sjálfstætt og óháð framkvæmdarvaldinu og að framkvæmdarvaldið vaði ekki inn á verksvið þingsins á skítugum skónum eins og við höfum allt of mörg dæmi um og kannski sást vel í því frv. sem við vorum að afgreiða áðan um olíugjald þar sem framkvæmdarvaldið kom inn með ákveðinn málflutning á þinginu sl. vetur, ef ég man rétt, en síðan sýndi sig að sú vinna sem þar hafði verið unnin var öll unnin fyrir aftan bak og þurfti að endurtaka hana alla í vetur og fresta framkvæmd málsins enn um tvö ár.

[18:00]

Ég hef stundum sagt það sem mína skoðun að það er í orði kveðnu svo að við eigum að hafa hér þingbundna stjórn. Ég held að þessu hafi að mörgu leyti verið snúið við á undanförnum árum og við höfum stjórnbundið þing, þ.e. ríkisstjórnin kemur með sín mál og við afgreiðum þau hér meira eða minna sjálfkrafa, stundum án þess að hafa raunverulega aðstæður til þess að rýna vel ofan í þessi mál og enn síður að skipta okkur af framkvæmd þeirra.

Það hefur líka verið allt of mikið um það að þingið gangi frá losaralegri löggjöf þar sem ráðherra er heimilað að ákveða eitthvað með reglugerð og allt of lítið um það að þingið hafi umsjón með því hvort reglugerðirnar eru í samræmi við lög. Það hefur hvað eftir annað komið fyrir á undaförnum árum að ráðherra hefur sett reglugerðir sem svo nokkrum árum síðar hafa komið til kasta dómstóla og dómstólar orðið að burtkasta þeim vegna þess að þau standast ekki lögin sem þau eiga að vera byggð á. Það er kominn tími til þess að þingið reyni að koma einhverju formi á það eftirlitshlutverk sitt að framkvæmdarvaldið vaði ekki uppi með þeim hætti líka.

Ég vil ekki lengja mál mitt. Ég vil bara lýsa því yfir að það má kannski sitthvað eitthvað betur fara í orðalagi frv. eða framkvæmd þess en aðalatriðið tel ég að það er komið fram og ég held að athygli þingmanna ætti ekki að einskorðast við okkur varaþingmenn, nýþingmenn og tvo öldunga, ef svo má að orði komast, heldur væri vonandi að þingið tæki sér tak og a.m.k. ræddi þessi mál. En það sýnir kannski það að menn eru einmitt með aðra drauma en þá að auka veg þingsins að þeir hafa einmitt hugann bundinn við störfin sem bíða þeirra á vegum framkvæmdarvaldsins í bland við löggjafarstörfin.