Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 18:16:21 (1131)

1995-11-20 18:16:21# 120. lþ. 37.3 fundur 146. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þingseta ráðherra) frv., Flm. SF
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur


[18:16]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunum, en vil aðeins fara yfir þau svör sem hafa komið fram og spurningar.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir tók það fram að hún vildi ekki fækka þingmönnum og taldi þar upp m.a. að það mundi minnka möguleika kvenna á að komast á þing. Ég tel að aðalatriðið sem heftir það að konur komist inn á þing sé kosningalöggjöfin. Það er ekki hversu margir eru á þinginu. Ég tel ekki vera neitt samhengi þar á milli. Það sýnir sig að eftir því sem listar eru lengri, þeim mun fleiri konur komast að. Við sjáum það bara í Reykjavík og Reykjanesi að þar komast flestar konurnar að.

Það er oft rætt um viðhorfsbreytingu og það þurfi mikla viðhorfsbreytingu til þess að konur komist að. Jú, viðhorfsbreyting á rétt á sér og er auðvitað æskileg, en það er orðin alveg nægjanleg viðhorfsbreyting til þess að konur hópist inn á þing en vandræðin eru kosningalöggjöfin. Ef landið yrði eitt kjördæmi þá yrði hver listi sem þingflokkarnir mundu bera fram eins langur og hægt er og þá er alveg ljóst að ef Sjálfstfl. mundi stilla upp landslista, þá mundi hann aldrei dirfast að setja fjórar konur í efstu 25 sætin. Sjálfstfl. er með 25 þingmenn og þar af eru fjórar konur. Sjálfstfl. mundi aldrei dirfast að gera þetta. Að sama skapi mundi Framsfl. ekki dirfast að setja þrjár konur í efstu 15 sætin. Við erum bara þrjár þingkonur af 15. Alþb. mundi ekki dirfast að setja tvær konur í efstu níu sætin á landslista. Þessi viðhorfsbreyting er því komin fram. Kosningalöggjöfin er bara þannig að þessi viðhorfsbreyting getur ekki notið sín. Ég tel þess vegna ekki að fækkun þingmanna geti skaðað neitt sérstaklega að konur komist til valda. Ég held að það verði að skoða það að gera landið að einu kjördæmi fyrir utan það að þá mundi atkvæðavægið jafnast og allt það kjördæmapot sem við erum öll að upplifa hér inni dags daglega mundi hverfa eða minnka allverulega.

Hv. þm. Viktor B. Kjartansson hélt mjög skelegga og góða jómfrúrræðu og ég vil óska honum til hamingju með hana. Hann taldi rétt að fækka þingmönnum og jafna atkvæðisréttinn og ég er svo hjartanlega sammála honum í því. Hins vegar kom hv. þm. inn á að það að varamenn kæmu inn hugsanlega í tvö ár, fjögur ár, gæti skapað óvissu og mér fannst allt í einu eins og hv. þm. væri að boða einhverjar útafskiptingar ráðherra Sjálfstfl. sem væru hugsanlega í farvatninu, en væntanlega er það ekki svo. En það er alveg rétt að þetta gæti skapað einhverja óvissu en auðvitað er óvissan talsverð í dag. Varaþingmenn eru að detta inn á þing, vita oft alls ekki áður um hvaða leyti þeir koma inn þannig að óvissan er talsverð í dag.

Hv. þm. Viktor B. Kjartansson kom einnig inn á það að auka vald forsetans, gera hann valdameiri og það hefur talsvert verið rætt í þessum umræðu. Varðandi forsetann er eitt sem ég hefði viljað taka upp hér sem reyndar kemur frumvarpsflutningi mínum ekki beint við núna, en mig langar samt að koma inn á það hér. Það er mikil sérstaða sem forsetinn nýtur og það er að greiða ekki skatta af launum sínum. Mér fyndist einmitt tækifæri núna þegar við vitum að það munu verða forsetaskipti á Íslandi að breyta lögum þannig að forsetinn greiði skatta. Það væri hægt að koma því þannig fyrir að sú löggjöf tæki gildi 1. ágúst þegar nýr forseti tekur við. Að sjálfsögðu yrði þá að hækka kaupið á móts við það eða alla vega að forsetinn gerði sér grein fyrir því að skatturinn yrði tekinn. Nú er einmitt tækifærið þegar við stöndum frammi fyrir því að kjósa nýjan forseta.

Hv. þm. Ágúst Einarsson sagði áðan að þingið væri framkvæmdarvaldsþing og ég tek svo sannarlega undir það, við værum á nokkurs konar framkvæmdarvaldsþingi og minna löggjafarþingi. Ég er sammála því að menn virðast allt of upp teknir við að hafa áhrif á framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafarstarfanna. Einnig kom hann inn á að starfshættir þingsins hafa sáralítið breyst þótt það sé mikil endurnýjun þingmanna, það sé eins og allir falli bara inn í eitthvert gamalt kerfi. Ég er sammála því. Ég upplifi t.d. þetta kjördæmapot. Það kemur mér mjög á óvart hvernig það birtist í þinginu.

Það eru ýmsar nýjungar sem ég sé að þingið notar sér ekki sem eru kannski minni háttar atriði í þessu sambandi, en ég nefni sem dæmi að það er ekki notast við myndvarpa á nefndarfundum. Það hefur oft komið upp sú staða á nefndarfundum að það væri mjög til bóta að hafa myndvarpa til þess að geta sett mynd upp á vegg og ræða um ýmis atriði sem væri hægt að skýra betur út þannig.

Hv. þm. Kristinn Gunnarsson kom inn á ýmis atriði sem ég ætla ekki að hætta mér út í að ræða, en ég skildi það svo að hv. þm. vildi efla þingræðið og það er einmitt það sem tillaga mín gengur út á.

Hv. þm. Ólafur Hannibalsson tók einnig undir frv. og vil ég þakka honum það. Mér fannst mjög vel að orði komist og hefði ekki getað orðað það betur þegar hv. þm. Ólafur Hannibalsson sagði að við værum ekki með þingbundna stjórn heldur stjórnbundið þing. Það er varla hægt að orða þetta betur í styttra máli og einmitt vegna þess að ég hef það á tilfinningunni að það sé rangt að hafa það svona þá flyt ég þetta mál.