Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 15:24:10 (1134)

1995-11-21 15:24:10# 120. lþ. 38.2 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[15:24]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir hefur verið lengi í smíðum og langur tími lagður í forvinnu í tengslum við það en eins og fram kemur í greinargerð og kom fram í framsögu ráðherra áðan var nefndin, sem smíðaði tillögurnar, skipuð 1986 upprunalega en skilaði tillögum sínum fyrir um það bil ári eða í nóvember 1994. Það er heldur ekki að undra að málið taki langan tíma í undirbúningi vegna þess að hér er um gífurlega mörg álitaefni að ræða, bæði siðfræðilegs og tæknilegs eðlis. Tillögurnar sem nefndin skilaði af sér voru reyndar valkvæðar þannig að nefndin gerði ráð fyrir tveimur möguleikum, annars vegar að heimiluð væri eggfrumugjöf og annarri er einungis mundi heimila sæðisfrumugjöf og það er tekið fram í áliti nefndarinnar að ýmis álitaefni séu uppi sem snúa að eggfrumugjöfinni umfram það sem snýr að sæðisfrumugjöf.

Ég tel jákvætt að sú leið sé farin að mismuna ekki pörum eftir því hvort þeirra á við ófrjósemi að stríða og ég hef ekki áttað mig enn þá á rökunum fyrir því að það sé meira álitaefni að gefa eggfrumur en sæðisfrumur þannig að ég tel það vera mjög jákvætt að þessi leið skuli hafa verið farin í frv.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fara ofan í öll þau álitaefni og allar þær spurningar sem vakna í tengslum við lestur frv. en vil einungis fjalla um þann þátt sem snýr að nafnleynd sæðisfrumu- eða eggfrumugjafa sem felur það í sér að barn sem getið er með gjafafrumum á ekki rétt á upplýsingum um hið eiginlega kynforeldri sitt þegar það hefur aldur eða þroska til.

Í greinargerð með frv. segir að ekkert liggi fyrir um að nafnleynd hafi gefist illa þar sem hún hefur tíðkast en jafnframt segir að svo til engar kannanir liggi fyrir um börn sem getin eru á þennan hátt eftir að þau komast á legg. Það er tekið fram að foreldrar og börnin líka virðast leiða hjá sér þá miklu umræðu sem átt hefur sér stað víðs vegar um heim í tengslum við þessi mál. Af þessu skil ég að það sé enginn sem viti hvort þetta hafi gefist illa fyrir þá einstaklinga sem þarna eiga í hlut og ég tel mjög mikilvægt að það sé algerlega á hreinu að ekki sé verið að brjóta rétt á þeim.

Að mínu mati eiga þessi börn eins og önnur rétt á og hafa auk þess þörf fyrir að rekja líffræðilegan uppruna sinn þegar þau hafa náð tilskildum aldri og tilskildum þroska til þess að gera slíkt. Ég tel það falla undir grundvallarmannréttindi að fá að vita um líffræðilegan uppruna sinn um leið og maður hefur til þess aldur og þroska.

Í frv. segir að hugmyndinni um að æskilegt sé að þekkja hinar líffræðilegu rætur sínar hafi lítt verið andmælt en þó hafi komið fram gagnrýnisraddir varðandi það að skapa óvissu meðal barna og eftirvæntingu sem síðar reynist erfitt að fullnægja. Þetta er í raun og veru ekkert öðruvísi en með önnur börn, t.d. ættleidd börn. Enginn getur tryggt að þegar þau rekja sinn líffræðilega uppruna einhvern tíma á ævinni standi sá fundur undir þeim væntingum sem þau gerðu þannig að mér finnst mjög mikilvægt að þarna sé börnum ekki mismunað eftir því hvernig þetta á sér stað í upphafi.

Varðandi þennan þátt kemur líka fram í greinargerð með frv. að í meginreglum sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um tæknifrjóvgun komi fram að mannréttindasáttmáli Evrópu verði ekki túlkaður svo að hann styðji þessa kröfu, þ.e. kröfuna um nafnleynd eða um að fá upplýsingar, en hann hafni henni ekki heldur. Sérfræðinganefnd Evrópuráðsins þorir því ekki að taka afstöðu til þess hvort þetta standist sáttmálann eða ekki þannig að það er greinilega vafi um þetta mál. Mörg atriði spila inn í þetta en mér finnst grundvallaratriði og ég tel rök fyrir því að þarna sé verið að mismuna fólki eftir því hvernig aðdragandinn er allur saman í upphafi. Ég tel því ekki rétt að fara þá leið sem farin er í frv. að tryggja þessa nafnleynd áfram.

Svíar hafa farið þá leið að þar sem barn hefur orðið til með tæknifrjóvgun á það rétt á að fá upplýsingar um uppruna sinn þegar það hefur aldur til. Það er tekið fram í greinargerð með frv. án þess að rakið sé nákvæmlega hvernig þær reglur eru eða hvenær þetta á að koma til. Ég tel mjög æskilegt að reyna að fara þessa leið, einkum þar sem þessi spurning hefur orðið æ áleitnari á síðari árum og þar sem við erum að setja um þetta reglur núna að við förum þessa leið eða könnum hana mjög vel vegna þess að mér finnst ekki vera nægilega sterk rök fyrir því í frv. að fara hana ekki. Ég tel ekki vera nægileg rök fyrir því í frv. að viðhalda skuli nafnleyndinni. Það má vel vera að þau séu til staðar samt sem áður.

Eins og ég tók fram í upphafi eru hér ýmis fleiri álitamál sem væri hægt að taka fyrir, en ég mun koma frekar að því við 2. umr.