Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 15:31:56 (1136)

1995-11-21 15:31:56# 120. lþ. 38.2 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[15:31]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Jú, vissulega eru það ein rökin. Ég hafði komið auga á þau í greinargerðinni. Ég er ekki að segja að það séu engin rök með þessari leið sem farin er, alls ekki. Ég er ekki að gera lítið úr henni vegna þess að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að hér er um mörg álitaefni að ræða. En ég vil líka velta fyrir mér því tilviki sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefnir úr okkar litla samfélagi: Segjum sem svo að tiltekinn einstaklingur, A, sé tilkominn á þennan hátt og svona hlutur kvisast einmitt oft út í okkar litla samfélagi. Er það ekki frumréttur einstaklings, sem getinn er á þennan hátt, að hann eigi aðgang að upplýsingunum frekar en að það berist honum jafnvel til eyrna, án þess að hann eigi rétt á að vita hvernig það er til komið? Ég velti bara fyrir mér þeim möguleikum sem geta komið upp í þessu tilviki.

Það er annað sem benda má á í þessu sambandi sem mér finnst orka tvímælis í greinargerðinni. Þar er talað um að það hafi verið kostur fyrir fámenna þjóð eins og Íslendinga að nota innflutt sæði, með því sé hætta á skyldleika gjafa og þega hverfandi sem og hætta á að vitneskja eða samband komist á, milli þessara aðila. Innflutningur sæðis er því áfram fýsilegur kostur að því tilskildu að vinnslan fullnægi ströngustu kröfum og að um skyldar þjóðir sé að ræða og með lítilli blöndun kynþátta. Mér finnst afskaplega vafasamt að hafa þetta í greinargerð með svona frv. og mér finnst þetta einhvern veginn ekki stemma. En ég geri mér fullkomlega grein fyrir að þetta eru álitaefni.