Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 15:45:42 (1140)

1995-11-21 15:45:42# 120. lþ. 38.2 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[15:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög. Ég er hæstv. dómsmrh. afskaplega þakklátur fyrir að hafa lagt fram þetta frv. Ég tel eins og aðdragandi þess er hafi þurft til þess talsverðan kjark og áræði. Eins og kom fram í máli ráðherrans og er rakið í grg. með frv. töldu þeir sem sátu í nefndinni, sem sömdu það, mikið álitamál hvort ætti að fara þá leið sem er valin í 6. gr., þ.e. að heimila líka gjöf eggfrumna. Nefndin lagði fram tvær gerðir af frv. og ég minnist þess frá tíð síðustu ríkisstjórnar að þá vannst annaðhvort ekki tími eða menn höfðu ekki dug til að taka ákvörðun um það hvora gerðina ætti að leggja fram. Það hefur hæstv. dómsmrh. gert og á þakkir skildar fyrir það. Ég held að hér sé á ferðinni mjög merkileg löggjöf og hún tekur fram löggjöf annarra þjóða um svipuð efni. Ég verð að segja að ég hef aldrei skilið það siðferðilega álitaefni sem felst í því að sögn þeirra sem sátu í þessari nefnd að heimila gjöf eggfrumna. Ef það er heimilt að gefa sæði hvers vegna þá ekki eggfrumur? Ég satt að segja skil ekki þennan mun. Eini munurinn sem ég sé á þessum tveimur tegundum frumna er að önnur sprettur í karli en hin í konu og önnur er mörghundruð sinnum stærri en hin. Ég er þakklátur ráðherranum fyrir að hafa tekið af skarið í þessu efni. Segja má að þetta frv. hafi haft nokkuð langan meðgöngutíma því getnaðurinn að því var eiginlega 1986.

Ég er í flestum og nánast öllum aðalatriðum samþykkur efni þessa frv. Eins og kom fram í andsvari mínu áðan sé ég ekkert siðferðilegt álitaefni í þessu nema það sem varðar nafnleyndina. Ég skil alveg þau viðhorf sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hafði áðan uppi. Hún hugsar um þetta frá sjónarhóli barnsins og segir: Á barnið ekki að eiga rétt á því að vita nákvæmlega uppruna sinn? Það er virðingarvert viðhorf. Hún nefndi hins vegar að í frv. væri verið að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni þeirra sem gefa. Ég er því ekki sammála. Ég held að það sé fyrst og fremst verið að hugsa um hagsmuni þeirra sem þiggja, þ.e. þeirra sem þiggja þessar kynfrumur. Það hefur ekki verið neinn hörgull á sæðisgjöfum. Við Íslendingar höfum fengið sæði gefins frá öðrum þjóðum. Hæstv. ráðherra hefur rakið að það er tæknilega óframkvæmanlegt á þessu stigi um eggfrumur. Þess vegna er okkur sá kostur einn grænstur að verða okkur úti um þessar frumur hér. Af hverju grípa menn til þess ráðs eða af hverju eru t.d. eggfrumur gefnar? Ég get ekki ímyndað mér að það sé af nokkrum öðrum hvötum en bara af kristilegum náungakærleika. Að það séu konur sem sjálfar hafa upplifað þá einstöku gleði sem felst í því að fæða af sér barn og vilja hjálpa öðrum konum til þess að njóta hennar líka. Það er eina hvötin sem getur rekið nokkurn einstakling til þess. Það þarf að íhuga mjög vandlega áður en menn feta þá braut að eftir einhvern tiltekinn tíma, 16 ár eða 20 ár, eigi þessi kona það á hættu að það banki upp á hennar húsi barn sem hún á líffræðilega en ekki að öðru leyti. Ég held að það gæti leitt til þess að það mundi draga úr vilja kvenna til þess að gefa eggfrumur eða það mundi jafnvel ekki nema í sérstökum tilvikum vera kleift að fá eggfrumur. Það gæti farið svo, ef menn tryggja barninu þennan rétt, að þeir komi um leið í veg fyrir að þessi börn verði til. Þetta þurfa menn auðvitað að vega og meta. Ég tel að hæstv. dómsmrh. hafi tekist nokkuð vel upp í þessum atriðum og segi það við hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur að þótt ég skilji hennar viðhorf og þau eru sprottin af jákvæðum hvötum þá kynni svo að fara, ef sú leið, sem mér sýnist hún vera að mæla með, yrði farin, að aldrei yrði þörf fyrir frv., a.m.k. ekki þann hluta þess sem varðar heimild til að gefa og þiggja eggfrumur. Að öðru leyti tel ég að þeir kaflar frv. sem taka t.d. á rannsóknum á fósturvísum og geymslu kynfrumna og fósturvísa séu góðir, ég sætti mig við þetta að öllu leyti. Ég óska hæstv. dómsmrh. til hamingju með þetta fína frumvarp.