Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 15:56:41 (1144)

1995-11-21 15:56:41# 120. lþ. 38.2 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[15:56]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fyrst og fremst þakka ég þær undirtektir sem hafa komið fram. Það er ljóst að það hefur tekið allnokkurn tíma að semja þetta frv. en ég hef orðið þess var í umræðunni að menn hafa haft á því skilning, ekki bara vegna þess að um flókið úrlausnarefni er að ræða heldur koma þar við sögu ýmsar áleitnar siðferðilegar spurningar eins og þessar umræður hafa borið með sér. Það er vissulega mikið álitaefni sem hér hefur verið fjallað um varðandi nafnleyndina og unnt að hafa skilning á ólíkum sjónarmiðum sem sett eru fram. Það var niðurstaða nefndarinnar og mín að hafa frv. með þessum hætti. Þar með er ég ekki að segja að önnur rök séu ekki gild í málinu en eigi að síður var það svo að yfirveguðu áliti nefndarinnar og ráðuneytisins. Ég tel mjög mikilvægt að nefndin, sem um þetta fjallar, ræði þetta álitaefni. Ég tek hins vegar undir með hv. 15. þm. Reykjavíkur að ég held að menn þurfi að hugsa það mál og ræða mjög ítarlega áður en menn hrapa að því að gera á því breytingar. Með því er ég ekki að segja að önnur rök komist ekki að í umræðunni. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra þingmanna sem hér hafa talað og ber þá von og ósk fram um að þingið geti afgreitt þetta frv. á þinginu þó það þurfi eðlilega vandaðrar og ítarlegrar málsmeðferðar með.