Umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 16:02:43 (1148)

1995-11-21 16:02:43# 120. lþ. 38.4 fundur 157. mál: #A umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun# þál., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[16:02]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun sem liggur fyrir á þskj. 187. Með þeirri umferðaröryggisáætlun sem er verið að leggja fyrir Alþingi er verið að taka fyrsta skrefið í þá átt að stjórnvöld marki skýra stefnu í umferðaröryggismálum og setji sér ákveðin töluleg markmið og heildstæða áætlun um fækkun umferðarslysa fram til aldamóta líkt og víða hefur verið gert í öðrum löndum með allgóðum árangri.

Áætlað er að kostnaður samfélagsins vegna umferðarslysa sé gríðarlega mikill og geti numið um 8 milljörðum kr. á einu ári þegar allt er talið.

Það hlýtur að vera sérstakt markmið að freista þess með öllum tiltækum ráðum að gera þær ráðstafanir sem geta fækkað alvarlegum umferðarslysum svo ekki sé talað um banaslysin. Það er sérstakt markmið með þeim aðgerðum sem áætlunin tekur til að unnið verði að því að fækka þessum slysum. Því fer að vísu víðs fjarri að við Íslendingar höfum verið aðgerðalausir í þessu efni. Hér hefur verið unnið með ágætum starf að umferðaröryggismálum sem hefur vissulega skilað árangri. Hins vegar þykir þeim sem að þessu hafa komið sem um margt hafi skort á að unnt væri að fylgja samræmdri og heildstæðri áætlun til þess að ná skilgreindum markmiðum, ekki síst með tilliti til þess að hér koma fjölmargir aðilar við sögu, þeir sem vinna að upplýsingamálum, þeir sem vinna að almennum umferðarreglum, gerð vega og fleiri aðilar sem ráðið geta miklu um þróun þessara mála. Það hefur sýnt sig meðal annarra þjóða að slík skipuleg heildstæð vinnubrögð fyrir alla þá sem vinna að þessum málum geta leitt til verulegs árangurs.

Á vettvangi Norðurlandaráðs var samþykkt norræn umferðaröryggisáætlun á árinu 1988 og í framhaldi af því settu aðrar Norðurlandaþjóðir en við sér sérstakar framkvæmdaáætlanir í þessum málaflokki. Allar þjóðirnar hafa náð verulegum árangri í því að fækka umferðarslysum með slíkum vinnubrögðum. Danir settu sér til að mynda það mark að slysum skyldi fækka um 40--45% á tólf árum og sex fyrstu árin virðast sýna að það markmið ætli að nást.

Með þessari áætlun er verið að fylgja árangursríku fordæmi annarra Norðurlanda og fleiri nágrannalanda okkar. Ég tel að ekki sé nokkur vafi á því að sú umferðaröryggisáætlun, sem hér hefur verið lögð fram, muni hvetja til enn frekari árangurs og samvinnu á þessum vettvangi þó að hún sé að sjálfsögðu hvergi nærri fullkomin og leysi ein og sér ekki allan þennan vanda. Framkvæmd hennar og útfærsla á hverju sviði skiptir auðvitað meginmáli, en hitt er höfuðatriði að hver og einn hafi þá meginlínu til að vinna eftir sem Alþingi leggur til. Það ber að hafa í huga að þessi umferðaröryggisáætlun verður að vera lifandi verkfæri og í stöðugri endurskoðun. Áætlunin á að vera sveigjanleg, hún á að setja almennan ramma um umferðaröryggisstarfsemi í landinu og hana verður að endurskoða reglulega og laga að nýjum og breyttum aðstæðum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir því að á næstu sex árum, eða fyrir lok ársins 2000, skuli stefnt að fækkun alvarlegra umferðarslysa um 20% miðað við meðaltal áranna 1982--1992. Þessu takmarki verði náð með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, vátryggingafélaga og áhugahópa um umferðaröryggismál. Opinberir aðilar og fyrirtæki sem starfa að umferðaröryggismálum og sveitarfélög með fleiri íbúa en 1.000 eiga að skila sérstakri framkvæmdaáætlun eða tillögum sem leiða muni til aukins umferðaröryggis. Ráð er fyrir því gert að kynna á hverju ári stöðu umferðaröryggismála í ljósi þeirrar áætlunar sem unnið er eftir og hvernig starfinu miðar fram og með því móti veita þeim aðilum sem eiga hlut að máli eðlilegt aðhald og hvatningu.

Þessi tillaga var í upphafi lögð fyrir 118. löggjafarþing í byrjun þessa árs en kom ekki til umræðu vegna þess knappa tíma sem þá var til stefnu og er því endurflutt nú.

Aðdragandi tillögugerðarinnar var samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 20. nóv. í fyrra um stefnumörkun í umferðaröryggismálum þar sem ákveðið var að stefna skyldi að verulegri fækkun umferðarslysa fyrir lok ársins 2000. Í samræmi við þá samþykkt skipaði ég nefnd í desembermánuði á sl. ári til að gera tillögur hér að lútandi. Í nefndinni sátu Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður, sem var formaður nefndarinnar, Brynjólfur Mogensen yfirlæknir, Jón Birgir Jónsson, ráðuneytisstjóri í samgrn., Margrét Sæmundsdóttir, formaður umferðarnefndar Reykjavíkur, og Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður. Með nefndinni störfuðu Þórhallur Ólafsson, tæknifræðingur hjá Vegagerðinni og formaður Umferðarráðs, og Haraldur Sigþórsson, deildarverkfræðingur hjá borgarverkfræðingi.

Nefndin skilaði tillögum sínum með ítarlegri skýrslu 27. jan. sl. Skýrslan hefur verið sérprentuð og liggur nú á borðum hv. alþm. Af heimildarskrám má sjá að víða hefur verið leitað fanga og tillögur bornar saman við heimildir og reynslu annarra þjóða. Ég vona að skýrslan verði gott upplýsingarit um umferðaröryggismál og gefi allgott yfirlit um þær aðgerðir sem helst koma til álita í þessum efnum. Með samþykkt tillögu þessa efnis er lagt til að Ísland bætist í hóp þeirra fjölmörgu ríkja sem hafa freistað þess að vinna með þessum hætti að auknu umferðaröryggi.

Ástæða er til að hafa það í huga og leggja á það ríka áherslu að þessi mál verða ekki leyst með því einu móti að samþykkja áætlanir eða setja fram hugmyndir um aðgerðir, þau verða aðeins leyst með lifandi starfi þeirra aðila sem hér eiga hlut að máli og aðlögun og endurskoðun þeirra markmiða sem sett hafa verið. Við erum að hefja nýjan áfanga á grunni sem hefur verið byggður með góðu starfi þeirra sem unnið hafa að umferðaröryggismálum um mörg undanfarin ár. En það er mikilvægt að við náum meiri og betri árangri. Reynsla okkar síðustu vikur sýnir að við þurfum að gefa þessum málum meiri gaum en við höfum gert.

Í skýrslunni eru nefnd sérstaklega 22 atriði sem nefndin leggur megináherslu á. Ég ætla ekki að fara yfir þau í einstökum atriðum en vísa til þeirra í athugasemdum með tillögunni og skýrslunni sem fylgir með.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja til að tillögunni verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umr. og hv. allshn.