Umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 16:17:14 (1150)

1995-11-21 16:17:14# 120. lþ. 38.4 fundur 157. mál: #A umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[16:17]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari þingsályktunartillögu og vona að hún nái fram að ganga og í framhaldinu verði eitthvað raunhæft gert í umferðaröryggismálum. Það er aðeins eitt sem ég vil nefna hér í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram á undanförnum mánuðum um öryggismál í hópferðabifreiðum, og þá sérstaklega bílbelti. Mér finnst ekki koma nægilega skýrt fram í tillögum nefndarinnar hvað á að gera í þeim efnum, en í 9. lið á bls. 2 í tillögunni segir að rétt sé að láta kanna hvort opinber gjöld standi í vegi fyrir að ökutæki séu búin bestu fáanlegum öryggistækjum. Og í þessari fínu skýrslu, sem við vorum að fá í hendur um umferðaröryggisáætlun til ársins 2001, stendur ein setning um þetta: ,,Rétt þykir að setja öryggisbelti í öll sæti skólabíla og æskilegt er að öryggisbelti verði enn algengari í hópbifreiðum.``

Þessi sérstöku mál voru rædd nýlega í allshn. þingsins og það er mitt mat að það sé mjög brýnt að taka á öryggismálum hópferðabifreiða. Það mál þolir í rauninni enga bið. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort það standi til að flýta því máli eitthvað umfram það sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir.