Umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 16:19:14 (1151)

1995-11-21 16:19:14# 120. lþ. 38.4 fundur 157. mál: #A umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun# þál., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[16:19]

Drífa Sigfúsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að hafa lagt fram þessa þáltill. Þarna er lagt fram ákaflega mikilvægt mál og hér fylgdi með ágæt skýrsla, sem dreift var til þingmanna. Ég vil þó nefna nokkur atriði og það fyrsta sem ég tel að við þurfum að skoða, í ljósi þessarar þáltill., er hvort að slysin séu nægilega hátt metin í því arðsemismati sem við notum til grundvallar þeirri vegagerð sem farið er í hér á Íslandi. Ég tel að það sé hlutur sem að þarf að skoða. Ég veit að það er ekki á verksviði dómsmrh., en það skiptir engu að síður verulegu miklu máli.

Í annarri setningu þáltill. er talað um sameiginlegt átak um umferðaröryggismál. Ég fagna því og vona að þar takist vel til. En ég vil vekja athygli á því að það vantar samræmingu á hönnunarstöðlum í gerð umferðarmannvirkja. Vegagerðin er með einn staðal, en hins vegar hafa íslensk sveitarfélög notast við marga og mismunandi staðla. Ég tel að út frá öryggiskröfum sem við ættum að setja fyrir vegfarendur væri skynsamlegt að hér væri notast við einhverja hönnunarstaðla sem í það minnsta rugla ekki vegfarendur. Mér finnst mikilvægt að farið verði í að skoða þennan þátt varðandi samstarf ríkis- og sveitarfélaga.

Það sem ég vil nefna næst, varðar skráningu slysa. Ég fór inn í Vegagerð að leita mér upplýsinga og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk þar er misjafnt hve nákvæmlega slys eru skráð. Það er kannski eðlilegt, sé um alvarleg slys að ræða fellur þetta atriði kannski í skuggann. En engu að síður hljótum við að viðurkenna að það getur ekki gengið, ef við viljum fylgjast með hvort eitthvað sé að vegakerfinu, að það sé eingöngu skráð í bækur að það hafi orðið slys á Holtavörðuheiði. Við þurfum að fara í gegnum skráningarferli slysa varðandi staðsetningu þeirra. Ef um er að ræða gallaða hönnun umferðar eða einhver viss umferðarsvæði, sem eru sérlega erfið, er nauðsynlegt að það komi fram svo úr því megi bæta. Auk þess skilst mér að það hafi jafnvel reynst erfitt að fá að keyra saman upplýsingar til að finna út hvar alvarlegustu slysin verða. Þar þarf leyfi tölvunefndar, en ég held að það sé ákaflega mikilvægt fyrir þá sem vinna að þessari samræmingu að það sjáist hvar alvarlegustu slysin verða, svo úr þeim þætti megi bæta. Mér finnst það mjög mikilvægt og það er ekki síst nauðsynlegt til að draga úr þeim skaða sem hlýst í umferðinni og þá sérstaklega hvað varðar ungt fólk.

Við hljótum að vera sammála um bæta umferðarkerfið. Það verður ekki gert nema að fyrir liggi sem ítarlegastar upplýsingar. Ég vil nefna einn þátt í viðbót. Hjólreiðastígar eru utan þess sem Vegagerðin hefur tekið á og ég nefni sem dæmi Reykjanesbrautina. Þar tel ég að sé allmikil slysahætta af þeim hjólreiðamönnum sem koma til landsins með flugi. Þeir hjóla á Reykjanesbrautinni og þar er nú ekki alltaf gott skyggni og það fer misjafnlega fyrir logninu þarna á Suðurnesjum. Í þessu er, að mínu mati, fólgin talsverð slysahætta og mér finnst því nauðsynlegt að skoða þennan þátt og hefur það verið rætt af hálfu sveitarfélaganna, bæði á Suðurnesjum og eins hér á höfuðborgarsvæðinu, á ráðstefnu sem þau héldu. Ég vil því líka vekja athygli dómsmálaráðherra á þessu. Og það er enn eitt sem mér finnst mjög mikilvægt af því sem kemur fram í skýrslunni sem hér var sett fram. Það varðar almenningssamgöngur, hugsanlega meiri notkun á þeim, og að þær séu umhverfisvænni. Þar held ég að skipti verulega miklu máli hvort ríkið muni draga úr skattlagningu almenningsfyrirtækja. Ég held að það vegi verulega þungt ef við viljum draga úr þeirri mengun sem bílar og slík farartæki valda og fara frekar út í viðameira strætókerfi eða aðrar almenningssamgöngur, með hvaða hætti sem þær verða.

Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til dómsmrh. og vonast til þess að okkur takist að hrinda þessum áætlunum í framkvæmd.