Umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 16:33:13 (1153)

1995-11-21 16:33:13# 120. lþ. 38.4 fundur 157. mál: #A umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun# þál., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[16:33]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka þá góðu umræðu sem hefur farið fram og þær góðu undirtektir sem þáltill. hefur fengið. Hún hefur verið mjög vandvirknislega unnin af mörgum þeim sem hafa gersta þekkingu á því viðfangsefni sem við blasir. Ég held að enginn vafi sé á því að það er almennur áhugi og mikill vilji á því að taka á þessu viðfangsefni. Maður merkir það kannski á því að ég held að fólkið í landinu taki mjög vel þeim daglegu umvöndunum sem það fær í þessum efnum. Menn eru yfirleitt þreyttir og leiðir þegar verið er að vanda um við þá og minna þá á að þeir eigi að gera hlutina svona og ekki hinseginn. En ég held að því er umferðarmálin varðar að þeir sem hafa haft það starf með höndum að vekja okkur á hverjum degi með ábendingum um árvekni og um þau atriði sem mestu skipta þann daginn njóti skilnings og velvilja allra þeirra sem á þá hlusta vegna þess að fólk veit og skynjar að það er þeirra eigin hagur að fara að þeim ráðleggingum og þeir hafa unnið þakklátt starf. Hér þurfum við að gera miklu meira en að koma slíkum ábendingum af stað og samræma aðgerðir á miklu fleiri sviðum. Vonandi tekst það vel í framhaldi af þeirri stefnumörkun sem hér er verið að hleypa af stokkunum.

Varðandi þá spurningu sem kom fram frá hv. 19. þm. Reykv. er það svo að eftir alvarlegt umferðarslys á dögunum þar sem stór fólksflutningabíll valt skipaði ég sérstaka rannsóknarnefnd til að fara yfir það slys og gera tillögur. Ein af tillögum nefndarinnar er að það verði skoðað sérstaklega hvort og hvernig eigi að setja reglur um bílbeltanotkun í hópferðabílum. Það verður gert samkvæmt ábendingu nefndarinnar og tekið út sem sérstakt viðfangsefni og ég vona að það verði hægt að flýta niðurstöðu á þeirri athugun. Nefndin tekur ekki ákveðna afstöðu í þessu efni en segir að veigamikil rök mæli með því að beltum verði komið fyrir í þessum bifreiðum að það verði að skoða sérstaklega. Eins og hv. þm. vita eru ýmsar hliðar á því máli sem þarf að skoða og það verður gert.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, ítreka þakklæti mitt til þeirra hv. þm. sem hér hafa tekið með mjög jákvæðum hætti þátt í þessari umræðu.