Umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 16:37:59 (1156)

1995-11-21 16:37:59# 120. lþ. 38.4 fundur 157. mál: #A umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[16:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé rétt röð á hlutunum að þessi stefnumótun, sem tekur á vel flestum þeim þáttum sem verið hafa til skoðunar og umræðu undanfarin ár og álitamálum af því tagi eins og hvort og þá hvenær eigi að lögleiða notkun reiðhjólahjálma, hvort lögleiða eigi öryggisbelti í fólksflutningabifreiðum o.s.frv., verði unnin í þeirri röð að fyrst verði þessi ályktun meðhöndluð og afgreidd og þar verði stefnan mótuð. Síðan verði gerðar þær breytingar á löggjöf sem leiði af þeirri stefnumótun en ekki öfugt. Ég lagði m.a. fram þessa fyrirspurn fyrir nokkru, hvað áætluninni liði vegna þess að ég hafði af því fréttir að nú stæði til að tína út úr þessum pakka einstaka þætti og flytja um það sjálfstæð þingmál. Ég held að það sé ekki rétt röð á hlutunum heldur væri vænlegast að Alþingi einbeitti sér að því að fjalla um þessa umferðaröryggisáætlun og móta þar endanlega og ganga frá þeirri stefnu sem menn geta orðið sammála um að þessu leyti. Í framhaldinu verði svo sú vinna unnin sem lýtur að nauðsynlegum breytingum á einstökum ákvæðum laga.

Það er mat nefndarinnar að um það sé ekki ágreiningur að stefna beri að því að lögleiða reiðhjólahjálma. En það þarf að velja þann tíma með kostgæfni og þá aðlögun sem nauðsynlegt er að veita gildistöku slíkra lagaákvæða þannig að þegar þetta verða lög séu menn í stakk búnir til að framkvæma þau. Þá sé reiðhjólahjálmaeign til að mynda orðin svo almenn og útbreidd að það leiði ekki af sjálfu að lögin verði óvirk að hluta til. Auðvitað gerist það ekki þannig ef við lögleiðum notkun reiðhjólahjálma á morgun að allir sem eiga reiðhjól fari út í búð um eftirmiðdaginn og fái þar hjálma við hæfi og setji þá upp. Það mun ekki gerast þannig því þeir yrðu ekki til í landinu. Að gildistöku slíkra ákvæða þarf að vera hóflegur aðdragandi og það þarf að tímasetja hvenær skynsamlegast er að stíga skrefið til fulls. Það var sömuleiðis mat manna á sínum tíma þegar unnið var að því að festa það í lög að lögleiða t.d. öryggisbelti í bifreiðum. Ég held að þetta liggi nokkuð í eðli máls. Ég tel einnig vænlegast að þessu leyti að menn skoði málið í samhengi við aðra þætti umferðaröryggismálanna og velji sér skynsamlega viðmiðun í því hvenær eigi að láta slíka lögleidda notkun reiðhjólahjálma taka gildi.

Það er líka rétt að hafa í huga að þó menn séu yfirleitt sammála um að þetta sé öryggistæki sem þurfi að sjálfsögðu að auka sem mest og hraðast notkun á og stefna beri að því að lögleiða þá hefur ekki verið alveg einhlítt að hjálmarnir hafi verið til góðs. Í því sambandi er óhjákvæmilegt að nefna að einnig hafa hlotist slys af notkun hjálmanna, ekki í umferðinni heldur á leikvöllum og annars staðar þar sem börn hafa verið með hjálma á höfðinu sem hafa ekki verið nægilega vel útbúnir og ekki hafa haft öryggisfestingar sem hafa losnað sjálfkrafa ef hjálmarnir hafa til að mynda fest upp í rekkverkum eða leiktækjum á leikvöllum o.s.frv. Þess vegna er nauðsynlegt að þegar að lögleiðingunni kemur sé alveg ljóst að bestu fáanleg tæki séu þar á ferðinni.

Ég gæti að mestu leyti haldið sömu ræðu um notkun öryggissætisbelta í fólksflutningabifreiðum. Ég held að það sé ekki spurning um að það séu nauðsynleg öryggistæki sem stefna beri að að verði lögleidd en einnig þar þurfa að vera forsendur fyrir slíkri lögleiðingu. Við breytum ekki allri samsetningu fólksflutningabifreiða á einum degi eða einu missiri með slíkri lögleiðingu. Það verður augljóslega að eiga sér þannig aðdraganda að unnt sé að framfylgja lögunum. Ég held að stefna beri að því að þessi ákvæði taki gildi gagnvart nýjum bifreiðum og endurnýjun þeirra sem fyrir eru með einhverjum undanþágum eða einhverjum aðlögunarákvæðum gagnvart þeim flota sem er í notkun í dag. Þannig er það með margt fleira af því sem hér er verið að leggja til að auðvitað verður framkvæmdin að taka mið af aðstæðum eins og þær eru. Í því efni verða menn að sýna raunsæi. Mér fannst rétt að láta þetta koma hér farm, herra forseti, í framhaldi af þeim orðaskiptum sem urðu um þessi mál.