Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 17:56:16 (1164)

1995-11-21 17:56:16# 120. lþ. 38.8 fundur 158. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[17:56]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flm. fyrir þetta þarfa frv. og veit að hún veit eins vel og ég að það hefur gengið ansi treglega að fá þetta mál rætt í þinginu og að taka þessi mál hér á dagskrá. Ég ætla að þessu sinni ekki að fara efnislega mikið ofan í frv. heldur vísa í ræðu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur frá því á vorþingi þegar þetta frv. var lagt fram, en þá rakti hún ítarlega afstöðu okkar kvennalistakvenna til þessa máls. Þar kom m.a. fram að við hefðum lagt fram þáltill. til að reyna að fá þessi mál rædd og í framhaldi af henni hefði m.a. verið skipuð nefnd. Það er ljóst að þessi mál eru mun fyrr til komin. Þau hafa verið á dagskrá öðru hverju löngu áður en Kvennalistinn kom til. Ef ég man rétt var hér til umræðu frv., eða a.m.k. milliþingafrv., sem hæstv. forseti Ragnar Arnalds átti aðild að árið 1976. Þannig að þessi umræða er 20 ára eða jafnvel eldri og við skulum velta því fyrir okkur hvers vegna svo erfiðlega gengur að fá þessi mál rædd.

Ég vil aðeins segja fyrir mitt leyti að ég kom fyrst að þessu máli árið 1983 þegar Kvennalistinn var nýstofnaður og tók þátt í starfi svokallaðrar blaðastyrksnefndar þingflokka. Þá kom í ljós hvers konar vinnubrögð eru í kringum þá vinnu. Enda kemur alltaf öðru hverju upp hneyksli varðandi það að stjórnmálaflokkarnir fái svo og svo mikla peninga og þeim sé skipt eftir einhverjum skrýtnum reglum. Og ég verð að segja að eftir að hafa setið í þessari nefnd í nokkuð mörg ár, þá er ég þeirrar skoðunar að þetta séu skrýtnar reglur og þetta sé alveg óviðunandi ástand. Eftir langa setu í þessari nefnd komst ég í raun og veru að þeirri niðurstöðu að það væri yfirlýstur vilji Sjálfstfl. að vilja enga löggjöf um þessi mál og formlega vill Sjálfstfl. enga styrki til stjórnmálaflokka. En í reynd eru það stóru stjórnmálaflokkarnir, og þá fyrst og fremst Sjálfstfl., sem hagnast mest á núverandi ástandi. Þegar ég kom fyrst að þessu máli var t.d. upphæðinni sem fór til blaðastyrkja og til stjórnmálaflokka skipt þannig að 50% fór jafnt á milli þingflokka því það var talið að það kostaði lítinn flokk jafnmikið að gefa út blað og stóran. Hinu var skipt í hlutfalli við vægi atkvæða. Smátt og smátt var æ minna af upphæðinni skipt jafnt á milli þingflokka og nú er 12,5% skipt jafnt, en afganginum eftir þingstyrk. Það eru því Sjálfstfl. og stóru stjórnmálaflokkarnir sem fá langmest núna í beina styrki frá Alþingi eða til blaðanna og litlu flokkarnir fá æ minna. En formlega er Sjálfstfl. með þá skoðun að það eigi ekki að styðja stjórnmálaflokka. Þetta er alger tvískinnungur og því er löngu tímabært að þessi mál komi inn á hið háa Alþingi og verði rædd af alvöru og ekki verði málamyndanefnd sett á laggirnar án þess að nokkur hugur fylgi máli en þannig hefur það verið undanfarin ár. Það hefur verið skipuð nefnd ofan í nefnd, í mesta lagi kallaðir saman nokkrir fundir en það fylgir ekki hugur máli. Ég fagna þessu frv. því að núverandi ástand er algjörlega óviðunandi.

Ég bendi á að lokum að í nýlegri athugun sem gerð var í Háskóla Íslands kom fram að Kvennalistinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur bókhald sitt opið fyrir öllum og lætur endurskoða reikninga sína. Þetta kostar vissulega fé og aðhald en við kvennalistakonur teljum rétt að gera þessar kröfur til okkar sjálfra og til stjórnmálaflokkanna yfirleitt. Ég fagna því þessu framkomna frv. og vonast til að það fái vandaða umfjöllun þó að ég ætli ekki að taka afstöðu til einstakra greina á þessu stigi málsins.