Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 18:03:45 (1166)

1995-11-21 18:03:45# 120. lþ. 38.8 fundur 158. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[18:03]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðum hv. 13. þm. Reykvíkinga vil ég geta þess að Kvennalistinn hefur vissulega gengið á eftir því að starf umræddrar nefndar hæfist. Við gerðum það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og nú get ég upplýst hv. þm. og þann mannfjölda sem hér er viðstaddur um það að nefndin mun hafa verið kölluð saman. Að vísu var einhver brotalöm í þeirri framkvæmd, einhver misskilningur og það mætti víst enginn annar en formaður en það var þá ekki minni vilji hjá formanni en það að hann boðaði að nýju til fundar sem ég veit raunar ekki hvort hefur verið. (Gripið fram í.) Það er mjög stutt síðan, svona tvær vikur og varla það. En nefndin var sett á stofn til að fjalla um fjárreiður stjórnmálaflokkanna en ekki um starfsemi stjórnmálaflokkanna að öðru leyti, ef ég man rétt.