Vegalög

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 13:50:24 (1178)

1995-11-22 13:50:24# 120. lþ. 39.11 fundur 165. mál: #A vegalög# (reiðhjólavegir) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[13:50]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að taka undir efni þessarar tillögu. Góðu heilli eru það ekki eintómir sérvitringar sem stunda hjólreiðar í þessu landi. Það er vaxandi notkun reiðhjóla í umferðinni og ferðamenn nota þennan ferðamáta í síauknum mæli. Einmitt þess vegna vil ég sérstaklega taka undir efni þessarar tillögu. Það er ekki bara í þéttbýli sem er nauðsynlegt að gera ráð fyrir umferð hjólandi vegfarenda. Það er ekki síður brýnt að taka á þessu á milli staða og í því sambandi vil ég sérstaklega nefna mjög aukna umferð ferðamanna á reiðhjólum um vegi landsins og þá hættu sem er orðin veruleg, t.d. á kaflanum á Reykjanesbrautinni á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðstaðarins. Það er einkum þessi kafli sem veldur sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum og stjórnendum sveitarfélaga Reykjaneskjördæmis miklum og vaxandi áhyggjum, og allir vita hvernig Reykjanesbrautin er. Hún er aðeins með eina akrein í hvora átt og þetta er orðið mikið vandamál, ekki síst þegar ferðamennirnir eru að koma til landsins eða fara í rökkri. Þá hefur skapast og er að skapast æ meiri slysahætta vegna þessarar umferðar.

Af þessu tilefni vil ég sérstaklega taka undir efni þessarar tillögu og vona að um hana verði fjallað og tekið undir hana í nefnd.