Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:35:42 (1187)

1995-11-22 14:35:42# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm. að umferð á flugvöllum ráðist af því í grunninn hvaða verslanir séu opnar á hverjum tíma og hvaða vöruúrval þar er. Þetta gerist ekki þannig að farþegar í stórri breiðþotu sem fljúga yfir Keflavík líti út um gluggann og kíki eftir því hvort þar séu opnar búðir og skipi svo flugstjóranum að lenda. Þetta gerist ekki þannig. (GHall: Þvílíkt þekkingarleysi.) Í grunninn eru það allt aðrir hlutir, hv. þm., sem ráða því hvernig flugumferðin kvíslast um heiminn. Þar koma til hlutir eins og lendingargjöld. Þar koma til hlutir eins og þjónustusamningar við þau flugfélög sem velja sér flugvelli til að millilenda á o.s.frv. Það kemur auðvitað til einfaldlega sú umferð sem leiðir af uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu o.s.frv. Hitt er ljóst að það er mikilvægt að farþegum sem fara um flugvelli af ýmsum ástæðum bjóðist þar þjónusta og það sé reynt að reita af þeim eitthvað af peningum eftir því sem hægt er. Ég veit ekki til þess að það hafi almennt verið kvartað sérstaklega undan þjónustu fríhafnarinnar sem slíkrar. Ég veit ekki annað en reknar séu tvær myndarlega verslanir í Keflavík sem báðar veiti að því talið er mjög góða þjónustu. Ég hef aldrei lent í því að þurfa að brjóta þar upp dyr til að fá að versla og hef ég þó farið þarna nokkrum sinnum í gegn.

Hitt er annað mál að meðal annars okurhá leiga á húsnæði í Keflavík hefur hrakið marga þjónustuaðila í burtu, bæði bílaleigur, banka og gott ef ekki Póstur og sími hafa verið að draga úr sinni þjónustu eða hrekjast í burtu vegna hárrar húsaleigu. Þannig að þar geta legið hlutir sem ástæða er til að taka á. Varðandi samkeppnisstöðuna sem er dregin inn í tillöguna af hálfu hv. þm. þá held ég að menn verði að átta sig á því að í raun verður það alltaf þannig að fríhafnarverslun verður í sérstakri stöðu gagnvart samkeppni við almenna verslun inni í landinu. Það breytir engu um hvort sá sem rekur þá verslun er ríkið eða einhver einkaaðili sem hefur verið valinn til þess. Og ef einhver gæðingur verður valinn til að fá reksturinn á fríhöfninni verður það þá betri samkeppni við almenna verslun í landinu bara af því að það er einkaaðili en ekki ríkið? Ég held að menn þurfi að hyggja að þessum hlutum áður en þeir fara að úthrópa það að vandamálið sem slíkt sé það að ríkið reki þarna eina verslun.