Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:38:08 (1188)

1995-11-22 14:38:08# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:38]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var ákaflega sérkennilegt að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, fyrrv. samgrh., lýsa því yfir að farþegar gætu verslað án þess að flugvél lenti.

Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan. Það komu 840 þús. farþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og flugvélarnar lentu. Og farþegarnir komu þar við til að skoða það sem boðið var upp á í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það skiptir nefnilega miklu máli hvernig verslunin er. Ég þarf ekkert að endurtaka það sem ég sagði áðan. Verslunin eins og hún er nú í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er með ólíkindum. Það þekkir þingmaðurinn jafn vel og ég. Hann getur gert samanburð á flughöfninni á Keflavíkurflugvelli og flughöfnum annarra landa. Ég verð að segja það að mér finnst að stjórnvöld hverra tíma hafi haldið þannig á málum í sambandi við flugstöðina eins og þetta sé eitthvert punthús og ekki megi sjást þarna auglýsingaskilti uppi og þetta verði að vera í einhverjum ákveðnum farvegi virðulegrar flugstöðvar og varla að það megi benda á að þarna sé hægt að fá keyptan ýmsan vanning. Ég er nú ansi hræddur um að t.d. Kvennalistinn og fleiri aðilar sem styðja og vilja byggja upp handmennt kvenna og það sem þær hafa verið að gera í ýmsum handverksiðnaði, það ber nú ekki mikið á honum í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Það mætti lengi til telja en meginmálið er þetta: Við flm. þáltill. erum sannfærðir um að þingnefnd mun ekkert gera frekar en áorðið er. Þeim aðilum sem best þekkja til rekstursins og þeim aðilum sem hafa verið að skoða flugstöðvarbygginguna og reksturinn að undanförnu er best treystandi til að koma með tillögur um úrbætur.