Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:40:39 (1189)

1995-11-22 14:40:39# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:40]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. sé hér að hengja bakara fyrir smið þegar hann ræðst á fríhöfnina eða ríkisverslunina þar fyrir t.d. að hafa ekki tekið inn muni frá handverkskonum vítt og breitt um landið. Ætli það stæði þá ekki nær Íslenskum markaði, sem er sú verslunin sem rekur almenna vöruverslun á staðnum, að sinna slíku hlutverki en fríhöfninni sem verslar með þær vörur sem hefðbundið er að séu í fríhafnarverslun, þ.e. áfengi, tóbak, rafmagnsvörur, ilmvötn og ýmislegt því um líkt. Ég veit heldur ekki til þess að mönnum hafi verið neitað um að setja upp einhverjar aðrar verslanir. Er hv. þm. viss um að hann fari þar með rétt mál? Ef til að mynda Samtök handverkskvenna hefðu óskað eftir húsnæði til leigu til að starfrækja verslun þarna hefðu þær fengið synjun? Ég er ansi hræddur um að þarna þurfi menn aðeins að gæta sín. Ætli það sé ekki frekar þannig að mönnum hefur gengið mjög illa að sjá nokkurn grundvöll fyrir því að setja þarna upp þjónustu hvort sem er verslun eða eitthvað annað eins og t.d. húsaleigan hefur verið þó það standi þeim ekkert sérstaklega nær sem hér stendur að verja þá menn sem farið hafa með forræði þessara mála undanfarin ár. Það er annarra hlutverk og þar á meðal ber hv. þm. ekki síður ábyrgð á því en aðrir hafandi stutt þær ríkisstjórnir sem hér hafa haldið á málum að undanförnu. Mér finnast þessar röksemdafærslur því ekki fá staðist auk þess sem ég mótmæli sleggjudómum af því tagi sem hér komu fram um að þingið geti ekkert í þessu gert. Það sé alveg gagnslaust að setja í þetta þingnefnd, heldur verði enn einu sinni að reyna að láta ráðherrana gera þetta. Ég spyr líka að því: Hvers vegna er þessu máli beint til fjmrh.? Er það ekki utanrrh. sem fer með forræði þessa máls, stjórnskipulegt forræði mála í flugstöðinni í Keflavík? Ég veit ekki betur þó að almennur fríhafnarrekstur sem slíkur heyri undir fjmrn.

Ég held því að það þurfi að mörgu að hyggja betur í sambandi við þessa tillögu og ég harma það að hv. flm. skyldi ekkert taka undir tilboð mitt um það að reynt yrði að ná einhverju pólitísku samkomulagi um að koma þessum málum í farveg. Það væri þarft verk að reyna að skapa hér á þingi samstöðu um það að taka nú í eitt skipti á þessum málum en ekki rökstyðja tillöguflutning af þessu tagi með þeim hætti sem hér var reynt að gera af hálfu hv. flm.