Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:45:48 (1191)

1995-11-22 14:45:48# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnast hv. flm. furðu hvumpnir þó að hreyft sé að einhverju leyti andstæðum skoðunum eða öðrum áherslum en þeir setja fram í tillögu sinni. Það er eins og það hafi gleymst eða þeir ekki heyrt það að ég tók mjög jákvætt í það að þessi mál yrðu skoðuð og tók undir fyrri lið tillögunnar, honum væri ég efnislega samþykkur. Hins vegar virðast hv. flm. hafa hlustað einhvern veginn allt öðruvísi á þessi orðaskipti sem hér hafa farið fram en aðrir. Hv. fyrri flm. taldi að ég hefði sagt að farþegar gætu verslað í fríhafnarverlsuninni án þess að flugvélarnar lentu. Það er mikill misskilningur, það sagði ég aldrei. Hv. seinni flm. talaði um að ég hefði reynt að draga starfsfólkið inn í umræðuna og hefði sagt að verið væri að gera lítið úr starfi þess. Þetta nefndi ég aldrei á nafn þannig að ég bið hv. þm. annaðhvort að hlusta betur eða þá leita sér lækninga ef vandamálið liggur þar og vera ekki að hlusta á það sem hér er sagt og leggja mönnum ekki önnur orð í munn.

Varðandi það sem kom síðast fram í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar að í tillögunni felist ekki að ríkið geti ekki átt í verslun sem þarna er eða bara sé hlutafélag þá kom það ekki fram í framsöguræðu 1. flm. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,...en jafnframt dragi hið opinbera sig út úr rekstri tollfrjálsra verslana þar.``

Ég get ekki skilið þetta orðalag öðruvísi en þannig að jafnframt eigi ríkið algerlega að draga sig út úr verslunarrekstri. Er þá kominn upp einhver skoðanaágreiningur milli flutningsmanna? Annar mælir fyrir því í framsögu að ríkið eigi að hverfa algerlega á braut en hinn flutningsmaðurinn segir að það sé er allt í lagi að ríkið sé með, bara ef það er í hlutafélagaformi. Hafa menn kannski ekki hugsað þetta alveg til botns? Er þetta kannski e.t.v. svolítið hraðsoðin tillaga þannig að hv. flm. hafi ekki setið mikið á rökstólum um það hvað felist í orðanna hljóðan? Er hugsanlegt að hér sé einhver tískubóla á ferðinni sem m.a. er tilkomin vegna þess að einhverjir skruppu út í Kastrup og höndluðu þar sannleikann af því að þar höfðu verið einkavæddar einhverjar búðir? Ég er ekki viss um að hér sé vandað nógu vel til málatilbúnaðar, herra forseti, og tel að hv. flm. sem og okkur öllum væri fyrir bestu að þetta mál fengi ítarlega skoðun m.a. með það að leiðarljósi að leita pólitískrar samstöðu um málið.