Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:48:10 (1192)

1995-11-22 14:48:10# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:48]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar vil ég benda honum á að hann hafði mörg orð um að þarna væri veitt góð þjónusta sem ekki væri ástæða til að ætla að yrði neitt betri þó svo þetta færi yfir til einkaaðila eða til hlutafélags. Með þessum orðum finnst mér hann vera að lýsa því beinlínis yfir að þetta góða fólk sé kannski komið í hættu með störf sín vegna þess að verið er að flytja þetta yfir til einhverra annarra. (SJS: Ég sagði ekkert slíkt.) Jú, ég skrifaði það orðrétt niður en þetta kemur væntanlega fram í þingtíðindum þegar þau koma út.

Aftur á móti get ég alveg tekið undir að allar umræður um að gera þennan verslunarrekstur frjálsari með víðtæku samráði og víðtækri samstöðu eru að mínu skapi og ég tek heils hugar undir að ef aðrir hafa einhverjar betri lausnir, sem geta skilað sömu niðurstöðu, væri ég fyrsti maður til að taka undir samráð í því efni.

Varðandi það að við séum hvumpnir finnst mér að hv. þm. megi ekki sjálfur vera hvumpinn yfir því að honum sé svarað því að okkar mati er verið að hreyfa máli sem ég hygg að flestir séu sammála um að megi færa til betri vegar og meiri frjálsræðisáttar. Spurningin hefur alltaf verið sú hvernig á að koma því að.

Hann hefur sjálfur nefnt að þarna eru sérstaklega vandamál vegna þess hversu margir aðilar í stjórnkerfinu koma að rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og að því leyti hefur það kannski verið akkilesarhæll allrar framþróunar í starfi Leifsstöðvar, bæði innan og utan húss, sem menn hafa ekki enn getað lagað þannig að vel fari. Þetta er ein leið til þess að reyna það og ég fagna því ef menn vilja koma og gera enn betur.