Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:01:58 (1196)

1995-11-22 15:01:58# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., DSigf (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:01]

Drífa Sigfúsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kom fram að ég væri í mótsögn við sjálfa mig með því að nefna að þarna væri verið að opna glugga, og minntist síðan á þau vandamál sem væru þegar fyrir hendi í flugstöðinni. Ég sagði ekki að það væri vandamál í fríhöfninni, hvorki varðandi opna glugga né annað. Það er ekki mjög auðvelt mál í þessari flugstöð að opna glugga. Það er rétt að það þarf að leiðrétta mjög margt sem er að í þessari flugstöð. Það er margt sem þarf að laga þar, eins og ég nefndi áðan. Það er húsaleiga, það þarf að sinna betur þáttum arkitekta og annarra sem hafa hamlað starfseminni. Ég tel ekki að það hafi hamlað starfsemi fríhafnarinnar, það er bara allt annar handleggur. Og ég ætla að biðja hv. flm. um að greina á milli fríhafnar og flugstöðvar, þótt sami upphafsstafur sé í þeim báðum, og leggja ekki fram tillögur um einkavæðingu án þess að menn séu búnir að skoða þær. Ég held að það sé grundvallaratriði að menn skoði málið og leggi fram upplýsingar og tillögur í framhaldi af þeim upplýsingum sem fram koma. Upplýsingarnar á borðið fyrst, síðan ákvörðun.