Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:20:48 (1202)

1995-11-22 15:20:48# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:20]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ekkert af því sem hv. þm. segir breytir þeirri staðreynd að forræði yfir Flugstöð Leifs Eiríkssonar er hjá utanrrn., ekki hjá fjmrn. Þessi tillaga er þegar af þeirri ástæðu marklaus að fjmrh. getur ekkert gert í því sem honum er hér falið að gera. Það sem fjmrh. gerir er að taka við þeim gríðarlega miklu fjárhæðum og ört vaxandi tekjum sem fríhafnarreksturinn á vegum hins opinbera hefur skapað á undanförnum árum.

Að því er varðar nefndir sem skipaðar hafa verið þá fer það heldur ekkert á milli mála að þær hafa verið skipaðar af forræði utanrrh. og eru af ýmsu tagi. Það hefur verið leitað til sérfróðra manna, það hefur verið leitað til embættismanna og því næst hefur verið reynt að koma á samstarfi milli ráðuneyta. Það hefur ævinlega strandað á þvergirðingshætti hæstv. samgrh., þeim sama sem nú situr. Ef hv. þm. hafa raunverulegan áhuga á að ná fram einhverri lausn í núverandi stjórnarsamstarfi á þessu máli þá ættu þeir ekki að flytja tillögur sem þeir senda á vitlausa adressu heldur að reyna, ef það er hægt, að tala við hæstv. samgrh. Halldór Blöndal og reyna að koma vitinu fyrir hann. Ef þeir treysta sér til þess þá er það mjög gott. (GHall: Nú gengur hann í salinn.) Gengur hann í salinn.

Að því er varðar þá spurningu hvort ráðlegt sé eða hægt að flytja tillögur um breytingar af þessu tagi, en skilja við fjárhagsvandann í lausu lofti, þá segi ég einfaldlega eftirfarandi: Það er of áhættusamt. Menn hafa núna reynslu af því að núverandi rekstur fríhafnarinnar hefur skilað mjög vaxandi tekjum. Það vita menn. Það er þekkt stærð. Það er afspyrnumyndarlega að honum staðið, hann er undir mjög öflugri stjórn og hann hefur skilað góðum árangri. Það er flókið mál að fara út í breytingar á þessu og það liggur engan veginn fyrir að svo stöddu að ríkið hefði tryggt þær tekjur sem það þarf á að halda til að standa undir þessum risavaxna skuldavanda. Þegar menn eru t.d. að kvarta undan hárri húsaleigu, af hverju er hún? Það er jú vegna þess að þegar er synjað er um aðrar leiðir þá er raunverulega ekki annar kostur fyrir hendi en að krefjast þess að húsaleigan dekki ákveðið hlutfall af þessum fjárhagsvanda. Fyrsta mál í sambandi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar er því að leiða til niðurstöðu og fá fram klárar tillögur og úrræði til að leysa skuldavandann, svo skulum við ræða hitt á eftir.